Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 18:41:44 (644)

2001-10-16 18:41:44# 127. lþ. 11.6 fundur 4. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[18:41]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég er meðflutningsmaður að þessari þáltill. og ætla að segja hér nokkur orð.

Ég tel þetta afar mikilvægt mál sem hér er til umræðu. Við í Samfylkingunni höfum reynt að móta stefnu okkar gagnvart leikregum þjóðfélagsins sem mest út frá sanngjörnum leikreglum. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá verða þær leikreglur til á markaði í markaðsþjóðfélagi. Það þarf að hafa samræmi milli þessara leikreglna, bæði innan þeirra greina sem eiga í hlut og líka milli hinna ýmsu atvinnugreina í þjóðfélaginu. Skondið er að nefna dæmið um að það er ekki langt síðan gerð var krafa um að Póstur og sími, sem áður var en er nú kominn á söluskrána, aðskildi farsímakerfið frá annarri starfsemi sinni. Það þótti það sjálfsagt að Síminn var skyldaður til að gera þetta.

Það virðist liggja í augum uppi að aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu ætti að vera sjálfsagður hlutur þó svo að menn gætu átt hlutabréf í hinum ýmsu fyrirtækjum, bæði þeim sem væru í veiðum og öðrum sem væru í vinnslu. Út á það væri í raun ekkert að setja en menn yrðu að ganga frá málum sínum með aðskildu bókhaldi fyrir aðskiljanlegan rekstur.

Eitt má nefna líka. Menn hafa leyft takmarkaða þátttöku erlendra aðila í fiskvinnslu á Íslandi. Því er í raun og veru ekki hægt að breyta nema aðskilja veiðar og vinnslu. Eins og mál standa núna gagnvart sjávarútveginum munu fáir mæla því bót að opnuð verði leið fyrir erlenda aðila inn í útgerðina á Íslandi á meðan útgerðarmenn geta keypt upp og eignast Íslandsmið. Kerfið er þannig í dag. Ætli menn að fá erlenda fjárfestingu inn í fiskvinnsluna, sem ég tel ekki síður eðlilegt en fyrir aðra hluta atvinnurekstrar á Íslandi, þá verða menn að stíga þetta skref.

Það er ástæða til þess að nefna að nú liggur fyrir tillaga, sem ég heyrði ekki betur en hæstv. sjútvrh. tæki prýðilega undir, um að fiskur ætti að fara á markað á Íslandi. Af því ég veit að hæstv. ráðherra ætlar að tala í þessari umræðu þá vonast ég til að hann gefi okkur upplýsingar um hvenær við megum eiga von á því að tekið verði á þessum markaðsmálum, þ.e. að fiskur fari á markað.

Ég sé fyrir mér að sjávarútvegurinn á Íslandi muni blómgast sem aldrei fyrr þegar markaðurinn fær að leysa hans mál, þegar menn hætta að hafa miðstýrðar sérreglur í gangi vegna kvótans, þegar menn setja fiskinn á markað og þegar menn skilja á milli veiða og vinnslu þannig að ekki sé endalaust tekist á um verðmæti aflans eins og nú er gert og allir þekkja.

Þetta var nú það sem ég vildi segja um málið, hæstv. forseti. Ég vona sannarlega að menn láti hendur standa fram úr ermum og komi þessu til framkvæmda, því það er alveg ábyggilegt að það mun strax hafa áhrif til góðs. Það mun auka möguleika manna til að starfa í fiskvinnslunni. Maður talar nú ekki um ef um leið yrði aðgangur að fiskinum aukinn á mörkuðum. Það hefur sýnt sig, um það eru nýleg dæmi eins og frá Færeyjum, að í Færeyjum jókst verulega hreyfingin í fiskvinnslu. Ég held að flestir sem vilja leggja það á sig að velta þessum málum dálítið fyrir sér muni komast að þeirri niðurstöðu að þessi tillaga sé mjög skynsamleg. Menn ættu þess vegna að koma henni til framkvæmda sem fyrst.