Stækkun Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 13:47:58 (653)

2001-10-17 13:47:58# 127. lþ. 13.1 fundur 82. mál: #A stækkun Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Við í utanrrn. og utanríkisþjónustunni erum alltaf að berjast fyrir helstu hagsmunamálum Íslands. Það er hins vegar alveg rétt að við komumst oft og tíðum ekkert að því borði þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Ég veit að hv. alþm. muna eftir því í svokölluðu fiskimjölsmáli þegar utanrrn. fór í mikla baráttu til að rétta okkar hag, þá áttum við ekki einu sinni aðgang að byggingunni þar sem viðræðurnar áttu sér stað. Eftir nokkurt þóf komust okkar menn þar inn á Schengen-passa vegna þess að þeir höfðu aðgang að byggingunni vegna aðildar okkar að Schengen. Ef við hefðum ekki verið aðilar að því, hefðum við ekki einu sinni getað verið á göngunum þar sem verið var að taka þessar mikilvægu ákvarðanir. Þannig er nú staðan í sumum málum.

Hvað varðar það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði í sambandi við viðræður við umsóknarlöndin, þá erum við alla tíð að tala við umsóknarlöndin. Við gerum það með heimsóknum til þeirra og við reynum að gera þeim grein fyrir stöðu okkar og aðstæðum og því er almennt tekið vel. En samningaviðræðurnar verða ekki við þessar umsóknarþjóðir. Þær verða við Evrópusambandið og þær eru ekki hafnar. Við notum hins vegar hvert tækifæri til þess vekja athygli á stöðu okkar til þess að reyna að fá fram sanngjarna lausn þegar að því kemur. Það verður hins vegar að viðurkennast að athygli Evrópusambandsins beinist í mjög takmörkuðum mæli til Evrópska efnahagssvæðisins. Þeir eru uppteknir við þróun Evrópusambandsins. Þeir eru uppteknir við stækkunina. En við reynum að gera okkar besta til að halda athygli þeirra við þessar staðreyndir því það liggur fyrir að þegar stækkunin verður samþykkt þá mun það ekki eingöngu koma til afgreiðslu í þjóðþingum umsóknarlandanna og þjóðþingum Evrópu. Það er hlutur sem við þurfum jafnframt að afgreiða á Alþingi Íslendinga því að stækkun Evrópusambandsins er jafnframt stækkun á Evrópska efnahagssvæðinu.