Endurskoðun á EES-samningnum

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 13:50:36 (654)

2001-10-17 13:50:36# 127. lþ. 13.2 fundur 83. mál: #A endurskoðun á EES-samningnum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Þá erum við komin að stóra málinu. Mun okkur takast að fá endurskoðun á EES-samningnum þannig að hann verði viðunandi fyrir Íslendinga?

Evrópusambandið hefur breyst mjög mikið frá því að Evrópska efnahagssvæðið var myndað. Rómarsáttmálinn hefur verið uppfærður þrisvar. Gerðar hafa verið breytingar á Maastricht- og Amsterdam-samningi. Á annan tug stofnana hafa orðið til. Fríverslunarsamningar við löndin sem við höfum átt viðskipti við falla niður eins og ég hef þegar komið inn á og svo má nefna að sveitarfélagasamband innan Evrópusambandsins er orðið mjög öflugt og þar koma Evrópusvæðislöndin ekki að.

Hvað okkur varðar má búast við að róður þyngist og erfiðara verði að ná eyrum yfirstjórnar Evrópusambandsins og margir óttast rýrari árangur fyrir Ísland í samstarfi þjóðanna. Það kom fram í máli utanrrh. fyrir stundu að við höfum ekki einu sinni haft aðgang að göngunum þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Hvernig getum við tryggt aðkomu okkar að þeim ákvörðunum þannig að við séum ekki bara að taka við afleiðingunum og setja þær í lög hjá okkur án þátttöku?

Margir telja að samkeppni um styrki verði harðari, að minna fé komi e.t.v. til vísinda og rannsókna á Íslandi og því hefur verið hreyft að EES-ríkin og þar með Ísland muni e.t.v. verða knúin til að veita nýju löndunum styrk sem væri ný ábyrgð af okkar hálfu meðan við erum ekki aðilar að því sem máli skiptir. Við höfum rætt á Alþingi um aðkomu EFTA-ríkjanna, eins og áðan, þátttöku á fundum og hvernig við getum blandað okkur í málin.

Utanrrh. hefur sagt margoft að óhjákvæmilegt sé að aðlaga EES-samninginn að breyttum aðstæðum. Norðmenn virtust hins vegar ekki hætta á slíka endurskoðun og hefur mátt skilja að Norðmenn telji sig fremur tapa en græða á slíkri endurskoðun. Þeir virðast þó hafa opnað á tæknilega endurskoðun samningsins miðað við fréttaflutning, t.d. eftir Lúxemborgarfundinn. Eftir fund EES-ráðsins í Lúxemborg sagði hæstv. utanrrh., með leyfi forseta, að við stæðum frammi fyrir miklu hagsmunamáli sem væru tollar á fisk, síld, humar og fleira og að beðið væri eftir viðtölum við Evrópusambandið. Fram kom að allur kraftur færi í stækkun sambandsins og skipulagsbreytingarnar þar, að í þeirra máli hefði komið fram að við gætum ekki vænst þess að Evrópusambandið gerði undanþágur fyrir þau lönd sem stæðu utan þess. Þau viðhorf eru sýnilega uppi að fara þurfi með varúð í málinu.

Er það svo og eru Íslendingar og Norðmenn á öndverðum meiði í þessu þýðingarmikla máli fyrir hagsmuni okkar?