Endurskoðun á EES-samningnum

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 13:53:51 (655)

2001-10-17 13:53:51# 127. lþ. 13.2 fundur 83. mál: #A endurskoðun á EES-samningnum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[13:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Að því er varðar fyrri spurninguna, þá var það svo að á fundi mínum með Thorbjørn Jagland, utanrríkisráðherra Noregs, í apríl sl., ræddum við um stöðu EES-samningsins og á fundinum ákváðum við að gefnu samþykki stjórnvalda í Lichtenstein að fela háttsettum embættismönnum að vinna skýrslu um stöðu EES-samningsins og setja fram hugmyndir um það sem mætti betur fara í rekstri hans og hvernig hægt væri að bregðast við þeim breytingum sem nú eiga sér stað innan Evrópusambandsins.

Hópur embættismanna frá ríkjunum þremur og skrifstofu EFTA kom saman í Brussel 18. maí og var skýrsla frá þeim fundi rædd á fundi sem utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein áttu með sér 25. júní sl. í Lúxemborg. Skýrslan var fyrsta sameiginlega tilraun þessara ríkja til að gera nýtt stöðumat í ljósi breyttra aðstæðna innan Evrópusambandsins. Í þessari skýrslu er bent á að EES-samningurinn hafi hingað til uppfyllt þær væntingar sem gerðar voru til hans. Hins vegar er vakin athygli á breytingum á grundvallarsamningum ESB sem leiða til þess að stefnumótun og undirbúningur ákvarðana innan Evrópusambandsins fer fram í vaxandi mæli að auknu leyti í ráðherraráðinu og vinnuhópum þess þar sem EFTA-ríkin þrjú hafa engan aðgang. Auk þess hafa áhrif Evrópuþingsins aukist til muna. Þar kemur jafnframt til samstarf sveitarfélaga og ýmislegt annað sem hefur haft í för með sér miklar breytingar.

Einnig er vakin athygli á því að þess gæti í auknum mæli að sambandið setji sér markmið og samþykki áætlanir um efnahagsmál sem hafa bein áhrif á innri markað Evrópusambandsins án þess að EFTA-ríkin þrjú hafi nokkra formlega aðkomu að slíkri stefnumótun. Má nefna í því sambandi t.d. Lissabon-ferlið. Ákveðið var upp úr þeim fundi að halda áfram viðræðum í vinnuhópnum.

Á fundi mínum með Louis Michel, utanríkisráðherra Belgíu, þann 17. ágúst hér á landi, en hann gegnir formennsku innan Evrópusambandsins um þessar mundir, kynnti ég honum þessi sjónarmið sem lýst er í skýrslunni, þ.e. að EES-samningurinn endurspeglaði ákvæði Rómarsáttmálans eins og þau stóðu á árinu 1991 eða eins og þau voru áður en til komu sáttmálarnir í Maastricht, Amsterdam og Nice. Þróun hafi átt sér stað innan Evrópusambandsins á undanförnum árum, ekki síst á sviði umhverfismála og félagsmála, sem ekki sé með neinum fullnægjandi hætti endurspeglað í EES-samningnum. Þessi þróun geri okkur erfiðara fyrir að ná fram þeirri svokölluðu einsleitni sem að var stefnt á Evrópska efnahagssvæðinu og þetta kalli á skoðun á möguleikum til þess að lagfæra EES-samninginn. Utanríkisráðherra Belgíu lýsti því yfir að hann teldi hugmyndir um uppfærslu samningsins og myndun vinnuhóps í því sambandi áhugaverðan og sagðist vera reiðubúinn til að leggja slíkt til innan ráðherraráðsins.

Á fundi EES-ráðsins sem haldinn var 9. október í Lúxemborg lýstu EFTA-ríkin yfir áhyggjum vegna ákveðins misræmis milli EES-samningsins og Rómarsáttmálans eins og hann hefur þróast. EFTA-ríkin áréttuðu einnig að þessi munur gæti haft áhrif á einsleitni á EES-svæðinu og leitt til ójafnvægis. Ákvörðun hefur hins vegar ekki enn þá verið tekin um næstu skref í þessu ferli.

Síðan er spurt hvort það sé ágreiningur í þessu máli milli Íslands og Noregs. Löndin tvö hafa oft rætt þetta mál sín í milli. Ljóst er að bæði ríkin vilja einhverjar lagfæringar á EES-samningnum. Á þessu stigi tel ég alls ekki rétt að tala um ágreining. Löndin eiga náið samráð um þessi mál. Einhver áherslumunur er á milli Íslands og Noregs um hversu langt er hægt að ganga. Slíkur skoðanamunur er eðlilegur í samskiptum þjóða.

Ég hef haldið því fram að lagfæring EES-samningsins sé nauðsynleg og ég mun beita mér fyrir því. Hins vegar er því ekki að leyna að slík lagfæring verður ekki auðveld í framkvæmd. ESB er mjög upptekið af stækkun og hefur um þessar mundir minni tíma aflögu til að sinna öðrum málum eins og áður hefur komið fram. Málflutningur okkar hefur notið ákveðins skilnings en ljóst er að það verður erfitt að sannfæra framkvæmdastjórnina og öll aðildarríki ESB um víðtæka endurskoðun. Vísbendingar hafa þó verið gefnar af hálfu framkvæmdastjórnarinnar um að hugsanlega sé vilji til að skoða takmarkaða tæknilega aðlögun samningsins.

Hvað varðar aðlögunarþátttöku okkar í stofnunum Evrópusambandsins, sem ég vil leggja áherslu á, eða breytingu á bókun 9 um fisk, er ég alls ekki jafnbjartsýnn. En við í utanríkisþjónustunni munum halda áfram að fylgja þessu máli mjög fast eftir og hafa um það samráð við Alþingi og þá sérstaklega hv. utanrmn.