Fjölskyldustefna utanríkisþjónustunnar

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:17:29 (664)

2001-10-17 14:17:29# 127. lþ. 13.3 fundur 113. mál: #A fjölskyldustefna utanríkisþjónustunnar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:17]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram og þann skilning sem fram kemur á aðstæðum starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Ég tel afskaplega mikilvægt að sá skilningur sé fyrir hendi á Alþingi því að við verðum ekki alltaf vör við það í okkar ágæta þjóðfélagi að svo sé. Það er afskaplega mikilvægt að þeir sem kynnast þessum aðstæðum, eins og margir hv. þm. gera, ræði það eins og hér hefur verið gert.

Auðvitað er það svo að makar þessara starfsmanna --- starfsmennirnir eru þó sem betur fer í vaxandi mæli konur þannig að þetta snýst að einhverju leyti við --- eru ekki einu dæmin í okkar samfélagi þar sem lífeyrisréttindi eru afskaplega takmörkuð, t.d. við skilnað. Það er alveg ljóst að annað hjóna er miklu meira úti á vinnumarkaði en hitt. Það er komið ríkt tilefni til þess að endurskoða þessi mál almennt í þjóðfélaginu þannig að hægt sé að skipta lífeyrisréttindum sem ekki er hægt í dag. Það á við hv. alþm. og marga fleiri. Við vitum að þau störf eru krefjandi og leggja oft og tíðum mikið á maka. Þetta á því ekki eingöngu við í utanríkisþjónustunni.

Ég hef gert mér far um að eiga mjög gott samstarf við fulltrúa maka í utanríkisþjónustunni sem hafa með sér sérstakt félag. Við höfum hlustað á rök þeirra og ég vonast eftir því að starfið sem núna er í gangi muni leiða til einhverra úrbóta í þessum málum. Það er vissulega afskaplega mikilvægt að finna þann góða skilning sem hér er á hv. Alþingi og ég vil þakka sérstaklega fyrir það.