Nýtt byggðakort ESA á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:28:32 (667)

2001-10-17 14:28:32# 127. lþ. 13.10 fundur 121. mál: #A nýtt byggðakort ESA á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:28]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni Pálssyni fyrir að koma fram með þessa fyrirspurn og fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt á því að koma þessu máli á hreint og fá um það skynsamlega umræðu. Ég held að það megi ábyggilega segja um alla þingmenn þessa svæðis að sú sérkennilega ákvörðun sem tekin var um byggðakortin kom okkur mjög á óvart. Við höfðum enga nasasjón af henni fyrr en við sáum þessa frétt Morgunblaðsins um mitt sumar.

Mér hefur gengið afar erfiðlega að sjá t.d. hvaða rök geta legið fyrir því að hafa Akranes áfram þarna inni en fella Sandgerði út af kortinu. Ég vil minna á að ýmsir hlutir hafa gerst í Sandgerði á undanförnum mánuðum og árum sem hafa gert það atvinnusvæði nokkuð viðsjált, mundi ég segja. Ég verð að segja að mér finnst óheppilegt að þetta skyldi gerast núna og með þessum hætti.