Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:38:13 (671)

2001-10-17 14:38:13# 127. lþ. 13.4 fundur 63. mál: #A Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:38]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hóf starfsemi 1. janúar 1986 og starfar samkvæmt 16. gr. laga um málefni fatlaðra. Stofnunin hefur frá upphafi þjónað öllu landinu. Það hefur orðið umtalsverð fjölgun á þeim börnum og ungmennum sem njóta þjónustu stofnunarinnar á síðustu fimm til sex árum. Á árinu 1995 voru þau 290 en árið 2000 voru þau 493. Um 200 börnum og ungmennum hefur verið vísað þangað til greiningar á hverju ári síðastliðin tvö til þrjú ár en auk þess hefur stofnunin árlega eftirfylgd með um 300 börnum og ungmennum.

Stöðugildi við Greiningar- og ráðgjafarstöðina eru eins og fyrirspyrjandi rakti réttilega 30 en þar af eru nokkur hlutastörf og alls vinna tæplega 40 manns við stofnunina með sérþekkingu á ýmsum sviðum fatlana. Má þar nefna lækna, sálfræðinga, talmeinafræðinga, sjúkraþjálfa, iðjuþjálfa, þroskaþjálfa, félagsráðgjafa og leikskólakennara.

Biðtími samkvæmt upplýsingum frá yfirlækni á Greiningarstöðinni er eftir forskoðun sex til tólf vikur og við forskoðun er metin þörf barnsins fyrir ítarlegri greiningu, einnig er veitt fyrsta ráðgjöf um fötlun og þjónustuþarfir og fóru 55 börn í forskoðun árið 2000.

Þá eru það yngri börn með almennar þroskaraskanir. Fyrir börn á fyrstu tveimur aldursárum með alvarlegar fatlanir er biðtími eftir fyrstu þjónustu átta til tólf vikur en síðan er biðtími eftir þjónustu einstakra sérfræðinga sviðsins, t.d. talmeinafræðings eða sálfræðings mun lengri. Fyrir eldri börn á forskólaárum er biðtími til skólaathugunar og til staðfestingar á þroskahömlun sex til tólf mánuðir. 40 börnum var vísað til sviðs 1, þ.e. sviðs barna með almennar þroskaraskanir árið 2000 og alls nutu 109 börn þjónustu þessa sviðs á því ári og þar af voru 33 fædd á árunum 1998--2000, þ.e. tveggja ára og yngri.

Á sviði 2 eru skólabörn og ungmenni með almennar þroskaraskanir og afleiðingar höfuðáverka. Biðtími til greiningar og ráðgjafar er nú a.m.k. tólf mánuðir og er sífellt að lengjast. Fjöldi nýrra tilvísana á þetta svið var 77 en heildarfjöldi sem naut þjónustu sviðsins var 102 árið 2000.

Á sviði 3 eru þeir sem eru með hreyfihamlanir. Biðtími eftir að þjónusta hefjist er stuttur fyrir yngstu börnin. Fyrir börn nær grunnskólaaldri er biðtíminn nær fjórir til sex mánuðir. Alls nutu 125 börn þjónustu sviðsins. Nýjar tilvísanir voru 28 árið 2000.

Svið 4 er einhverfu- og málhömlunarsvið. Biðtími fyrir börn yngri en þriggja ára með sterkan grun um einhverfu er um þrír mánuðir en níu til tíu mánuðir fyrir eldri forskólabörn. Biðtími eftir greiningu á einhverfu hjá eldri einstaklingum með staðfesta fötlun er átta til níu mánuðir og börnum með Asperger-heilkenni sem hafa eðlilega greind er í litlum mæli sinnt á þessu sviði. Alls naut 131 barn þjónustu sviðsins árið 2000 og nýjar tilvísanir voru 44.

Þá er spurt hvaða hópar njóti ekki þjónustu Greiningarstöðvarinnar. Því er svarað þannig frá hendi yfirlæknisins:

Börnum sem búa við alvarleg þroskafrávik en eru ofan marka þroskahömlunar, þ.e. að því er mér skilst lítið þroskahömluð, er vísað frá. Fullorðnum einstaklingum sem eru eldri en 18 ára er ekki sinnt þó að ekki séu aldursmörk í lagagrein um Geiningarstöð. Einstaklingar með Asperger-heilkenni njóta, eins og áður sagði, yfirleitt takmarkaðrar þjónustu stöðvarinnar. Börn og ungmenni með vægari málhamlanir og sértækar málhamlanir eiga ekki aðgang að þjónustu stöðvarinnar. Skólabörn með einhverfu. Síðan hefur stofnunin ekki getað komið að málum ýmissa barna með sjaldgæfar fatlanir og einungis hluti barnanna með höfuðáverka hefur notið þjónustu stöðvarinnar. Uppsafnaður rekstrarhalli þessarar stöðvar ... (Forseti hringir). Herra forseti. Ég er þá búinn með tímann minn en get í seinni ræðu botnað þetta.