Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:49:56 (677)

2001-10-17 14:49:56# 127. lþ. 13.4 fundur 63. mál: #A Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:49]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka það fram að ég held að það sé unnið prýðilegt starf á Greiningarstöðinni. Ég tel að ekki sé ágreiningur um að þar vinni færir sérfræðingar gott starf. Biðtími eftir upphafsgreiningu er yfirleitt ekki langur. Það er hins vegar biðtími til framhaldsgreiningar og hin brýnni tilfelli hygg ég að séu tekin föstum tökum strax.

Varðandi atgervisflóttann sem menn staðhæfa að sé af stöðinni þá er náttúrlega afleitt að missa gott fólk en launakjör þeirra sem þarna vinna verða að vera í samræmi við það sem annars staðar er hjá ríkinu. Það er ekki hægt að fara að borga sálfræðingum eða sérfræðingum á Greiningarstöðinni eftir einhverjum öðrum samningum en þeim sem gilda við aðrar hliðstæðar stéttir.

Það hefur verið við fjárhagsvanda að etja og Greiningarstöðinni hefur gengið illa að halda sig innan ramma fjárlaga. Uppsafnaður halli stofnunarinnar frá árinu 1997 er orðinn 18,5 millj. en með 12 millj. viðbótarfjárheimild á árinu 2002 teljum við í ráðuneytinu að rekstrargrunnur stofnunarinnar hafi verið leiðréttur.

Á hinn bóginn er ljóst að stofnunin hefur ekki tök á að greiða niður uppsafnaðan halla. Ráðuneytið hefur því lagt áherslu á að hann verði bættur. Ég ætla að leggja fram frv. um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins á yfirstandandi þingi og í því frv. er að finna ítarlegri ákvæði um hlutverk og þjónustu stofnunarinnar en er að finna í 16. gr. laganna um málefni fatlaðra og okkur gefst þá tækifæri til að ræða málefni Greiningarstöðvarinnar aftur undir þeim dagskrárlið.

Árið 2000 voru 800 börn með umönnunarmat frá Tryggingastofnun --- til upplýsingar --- og fjögur börn í hverjum árgangi virðast vera alvarlega fötluð, þ.e. í þyngsta fötlunarflokki.