Réttarstaða erlendra kvenna

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:05:31 (684)

2001-10-17 15:05:31# 127. lþ. 13.5 fundur 70. mál: #A réttarstaða erlendra kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég held að sem betur fer sé ástandið ekki eins hábölvað og skilja mætti á sumum þeim sem hér hafa tekið til máls. Það er rétt að vinnu þessarar nefndar hefur ekki skilað fram sem skyldi vegna mannaskipta í ráðuneytinu, þ.e. formaðurinn hvarf til annarra starfa. En nefndin hefur verið endurskipulögð og er að störfum og hún fylgist með þessu máli.

Það er auðvitað verkalýðshreyfingarinnar að aðstoða okkur og veita okkur upplýsingar ef hún verður vör við að illa sé komið fram við starfsfólk. Eins og ég nefndi áðan þá þekkjum við hins vegar ekki nema eitt einasta dæmi um að verkalýðshreyfingin hafi þurft að skipta sér af þessu starfsfólki vegna þess að ekki hafi verið komið vel fram við það.

Það má geta þess að margar af þessum stúlkum ílendast hér. Þær giftast hér, stofna heimili og verða góðir borgarar og vafalaust mjög til kynbóta í þjóðfélaginu. Það er ekki til marks um að þeim líki illa. Mér finnst það vera frekar sönnun þess að þeim líki vel ef þær vilja setjast hér að. Það er fengur fyrir okkur að fá þær. Það þarf ekki nema koma á hestamannamót til þess að sjá hvers konar kvennablómi hefur sótt okkur heim á undanförnum árum.