Tillögur vegsvæðanefndar

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:19:23 (690)

2001-10-17 15:19:23# 127. lþ. 13.7 fundur 85. mál: #A tillögur vegsvæðanefndar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Þessi lokaskýrsla vegsvæðanefndar sem nefnist Þjóðvegir og búfé kom út í janúar sl. og ég hef kynnt hana í ríkisstjórn. Í henni er að finna 16 tillögur ásamt greinargerðum sem miða að því að draga úr slysahættu á þjóðvegum þar sem búfé á í hlut. Forveri minn, Guðmundur Bjarnason, skipaði þessa nefnd.

Auðvitað er það mál sem hér er rætt samgöngumál eða samgönguvandamál fremur en landbúnaðarmál þótt bæði landbrh. og ekki síður bændur þessa lands hafi áhyggjur af því og vilji sjá það fara í fastan farveg.

Ég vil nefna hér þær tillögur sem nefndin skilaði frá sér. Hún leggur til að gengið verði út frá því að ákveðið verði að friða suma hluta vega og þá verði þeir girtir samfelldum veggirðingum og á þeim svæðum verði lausaganga búfjár bönnuð. Á öðrum vegsvæðum þar sem ekki er um samfelldar girðingar að ræða verði ökumönnum gerð grein fyrir því með tilheyrandi umferðarmerkjum að búast megi við búfé. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um að ekki er hægt að ætlast til þess að við ráðum við að girða af alla vegi landsins. En við verðum að fara að eins og margar aðrar þjóðir, að vara bílstjórana við þeirri hættu sem getur stafað af búfé á einstaka leiðum í dreifðum byggðum. En það er mjög mikilvægt að girða vegina af þar sem umferðin er þyngst og mest. Mér finnst þetta horfa þokkalega að því leyti að mér finnst að Vegagerðin og ríkið viðurkenni nú fremur en fyrr ábyrgð sína í þessu máli.

Þegar hv. þm. spyr hver sé afstaða ráðherra til þess að girða búfé af í beitarhólfum í stað þess að girða vegina af, þá er ekki auðvelt að svara þessu já eða nei. Ég get tekið dæmisögu úr mínu kjördæmi sem ég þekki vel. Skeggjastaðir í Flóa er saklaust býli í miðjum Flóanum. Um Þjórsártún í Ásahreppi gildir nákvæmlega það sama. Þetta eru eignarlönd bænda. Einn daginn kom ríkið --- við getum ímyndað okkur að þessar jarðir séu svona eins og þessi þingsalur --- og klauf löndin í sundur hér frá Jóni Sigurðssyni og yfir í hinn endann á salnum. Bóndinn á landið báðum megin. Ríkið eignaðist 15 metra sneið í gegnum þessi lönd. Fyrst var þetta saklaus flutningur ríðandi manna og vagnhjóla með hestum fyrir. Nú er þetta iðandi umferð á 100 km hraða bíll við bíl.

Þessir bændur hafa t.d. farið fram á að fá undirgöng undir veginn til að geta nýtt lönd sín. Þeim beiðnum hefur verið hafnað. Ég spyr hv. þm.: Væri réttlætanlegt að fara í gegnum garðinn hjá henni og segja að hún yrði að borga þessa gönguleið? Þarna sjáum við að ríkið hlýtur í mörgum tilfellum að bera ábyrgð á vegunum. Ríkið á vegina. Hins vegar verða bændurnir, og þeir eru fúsir til þess, að koma til samstarfs um þessi málefni. Það er ljóst. Hér er dæmi um menn sem búa við þær aðstæður að því er hafnað að þeir fái ræsi til þess að geta nýtt til að reka kýr og hross sín um sem auðvitað eiga hvergi að vera á þjóðvegum. Þar eru þetta stórhættulegir gripir. Bændur verða að reka yfir vegina í gegnum umferðina, taka mikla áhættu með gripi sína og jafnvel börn sín. Í þessari baráttu hafa bændurnir staðið við ríkisvaldið um langa hríð á hinum fjölförnu leiðum.

Þess vegna er mál að linni þessari umræðu og að við komum henni í farveg. Ég hef átt samstarf við dómsmrh. og samgrh. Þarna verða ríkisstofnanir, sveitarfélög, lögreglan, bændur og landeigendur, þó þeir stundi ekki búskap, að koma að þessum stóru verkefnum til að koma þessu í ásættanlegt form þannig að úr verði lausn sem hentar bæði eigendum búfjár og eigendum jarða sem lentu í því að jarðir þeirra voru klofnar í tvennt, en ekki síst til þess að skapa það öryggi sem mikilvægast er fyrir umferðina og fólkið í bifreiðunum sem ferðast um vegina í landinu.