Tillögur vegsvæðanefndar

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:26:04 (692)

2001-10-17 15:26:04# 127. lþ. 13.7 fundur 85. mál: #A tillögur vegsvæðanefndar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Því miður er það þannig hvað varðar árekstra umferðarinnar og búfjár að það gerist alveg óskaplega lítið. Nefndir koma og fara, skila skýrslum og síðan situr að mestu leyti við óbreytt ástand.

Nú er haustið komið með sínu myrkri og við erum farin að fá fréttir af fyrstu alvarlegu slysunum þar sem stórgripir í lausagöngu eru á vegunum og menn lenda í því að keyra á þá.

Ég hef barist fyrir því, herra forseti, að menn taki á þessu máli m.a. með því að koma á vörsluskyldu stórgripa, aðskilja í umræðunni stórgripina annars vegar og sauðféð hins vegar. Stórgripunum tengjast alvarlegustu slysin og það er tiltölulega lítið mál, tiltölulega lítil röskun á högum bænda almennt í landinu að koma á lögbundinni vörsluskyldu stórgripa, enda er það að mínu mati tímaskekkja að hross og nautgripir séu að þvælast á umferðarmiklum vegum.

Um sauðfé gildir allt annað. Það er allt annað og öðruvísi vaxið verkefni að reyna að girða það allt saman af. Ég hef margendurflutt um þetta frv., herra forseti, með meðflutningsmönnum úr öllum flokkum en hingað til hefur landbn. þingsins tekist snilldarlega að drepa frv. En ætli við reynum ekki einu sinni enn.