Tillögur vegsvæðanefndar

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:29:42 (694)

2001-10-17 15:29:42# 127. lþ. 13.7 fundur 85. mál: #A tillögur vegsvæðanefndar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er leiðinlegt ef ég veld hv. þm. vonbrigðum. En þessi skýrsla með 16 tillögum liggur fyrir og það er ákveðinn vilji ríkisstjórnarinnar að fylgja henni eftir og verið er að gera það í mörgum tilfellum. Í mörgum tilfellum er Vegagerðin að ná samningum við stjórnir sveitarfélaganna þar sem hægt er að girða með hreinni veggirðingu og ná samkomulagi um málið. Þetta er að gerast víða.

Ég vil nefna að gallinn á þessu var oft sá að Vegagerðin var að girða og síðan var opið í báða enda oft og tíðum. (SJS: Eins og fleira.) Það skapaði þrengsli og hættu. Búfé rann inn á svæðið. Ég er sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að því leyti að hann telur auðveldara að eiga við stórgripina. Þeir eru náttúrlega miklu hættulegri og ég er sammála honum að taka þurfi á því. Ég nefni eitt dæmi. Ríkisvaldið, Vegagerðin, hefur í stórum stíl lagt reiðvegi nútímans meðfram hraðbrautunum þannig að þegar við förum um Flóann þá eru þar glæsilegir hestar og reiðmenn á leið með hraðbrautinni sem getur líka skapað hættu. Þetta höfum við kannski verið að gera.

En ég held að það þurfi að taka á þessu. Ég tel að þessi skýrsla sé nýtt gagn í þetta mál. Ég tel að nú þegar menn hafa áttað sig betur á þessum hlutum, ekki síst ríkisvaldið og Vegagerðin, þá sé nýr tími upprunninn þar sem við munum ná miklum árangri. Við sjáum það t.d. með kaffistofurollurnar að þær eru t.d. horfnar frá Litlu kaffistofunni af því að menn girtu meðfram veginum og settu þær hinum megin við girðinguna. Margir góðir hlutir hafa því verið að gerast. Þetta er búfé þeirra í Reykjavík og af Reykjanesi stundum þannig að ég tel að árangur sé töluverður. En betur má ef duga skal.

Hæstv. forseti. Þessi skýrsla er nýtt gagn inn í þessa umræðu og henni verður fylgt eftir.