Meðlagsgreiðslur

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:32:13 (695)

2001-10-17 15:32:13# 127. lþ. 13.8 fundur 86. mál: #A meðlagsgreiðslur# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir stuttu síðan lagði ég fram fyrirspurn til dómsmrh. á þskj. 86 um meðlagsgreiðslur. Mér varð strax ljóst að erfitt yrði að afla fullnægjandi svara við öllum liðum fyrirspurnarinnar sem fjallar um fjölda úrskurða um greiðslu tvöfalds eða aukins meðlags með barni eða börnum og hvernig staðið væri við slíka úrskurði.

Ástæða þess að ég setti fram fyrirspurnina er hins vegar sú að ég tel umræðu um fyrirkomulag á innheimtu meðlagsgreiðslna löngu tímabæra. Upphaflega var einfalt meðlag með barni hugsað sem lágmarksgreiðsla til framfærslu sem ríkið ábyrgðist. Ekki var um að ræða mat á framfærsluþörf þar sem gert væri ráð fyrir að meðlagsgreiðendur tækju þátt í ýmsum kostnaði sem til fellur vegna barns eða barna sem meðlag er greitt með. Hægt er að úrskurða um greiðslu á tvöföldu eða auknu meðlagi og þá er það gert á grundvelli tekna meðlagsgreiðanda og/eða aðstæðum þess sem fer með forræði barnsins. Foreldri sem á að fá meðlagið verður hins vegar að sjá alfarið um innheimtu þess. Ríkið ábyrgist ekki greiðslu á aukna meðlaginu. Innheimtustofnun ber ekki að annast, og sér ekki um innheimtuna. Þrátt fyrir að hún hafi til þess lagalega heimild hefur hún ekki viljað nýta hana.

Virðulegi forseti. Ég þekki nokkur dæmi þess að einstaklingar, feður, sem hafa áður verið úrskurðaðir á grundvelli tekna sinna og bágrar fjárhagsstöðu mæðra til að greiða aukið meðlag með börnum sínum stóðu aldrei við þessar greiðslur. Mæðurnar sóttu aldrei málið til enda vegna þess að til þess þurfti að kaupa aðstoð lögfræðings sem var ofviða bágri fjárhagsstöðu þeirra. Auk þess óttuðust þær að samband barna við feður yrði látið gjalda þess færu þær í hart.

Í þeim tilvikum sem ég þekki til var, þrátt fyrir mikla þörf og fjárhagslega erfiðleika, enga aðstoð að fá frá föður fyrir utan einfalt meðlag. Þessi tilvik eru hvergi skráð því þau koma hvergi fram opinberlega. Þessum mæðrum varð einfaldlega tilfinningalega og fjárhagslega ofviða að sækja rétt barna sinna til þessa aukameðlags.

Mér er fyllilega ljóst að ekki er hægt að svara á fullnægjandi hátt öllum þeim spurningum sem ég lagði fram en þar er ekki að sakast við fulltrúa ráðuneytis sem vann að svarinu. Þvert á móti veit ég að mikil vinna var lögð í að afla upplýsinga af hálfu ráðuneytis og var iðulega haft samband við mig sem fyrirspyrjanda. Þetta eru fyrirmyndarvinnubrögð og þess vegna vil ég gjarnan geta þess hér. En spurningar mínar til hæstv. ráðherra eru:

1. Hversu mörgum hefur í meðlagsúrskurði verið gert að greiða tvöfalt meðlag með barni eða börnum við sambúðarslit eða hjónaskilnað sl. fimm ár? Hversu margir þeirra hafa staðið skil á þessum greiðslum?

2. Ef um vanskil er að ræða, hver er heildarupphæð vanskila og í hve mörgum tilvikum hefur verið leitað til dómstóla vegna slíkra mála?

3. Hyggst ráðherra beita sér fyrir lagabreytingum sem tryggja betur að úrskurði um greiðslu á tvöföldu meðlagi verði framfylgt?