Stytting rjúpnaveiðitímans

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:57:44 (704)

2001-10-17 15:57:44# 127. lþ. 13.9 fundur 94. mál: #A stytting rjúpnaveiðitímans# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:57]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Varðandi það sem hv. þm. Örlygur Hnefill sagði hér áðan þá er það rétt að þurfi, rjúpunnar vegna, að stytta veiðitímann þá er auðvitað langmesta skynsemin að gera það í lok veiðitímans. Þá geta veiðimennirnir í byrjun veitt rjúpurnar sem annars mundu deyja af náttúrulegum afföllum og það er líka mjög skynsamlegt.

En það er líka rétt sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, Steingrími J. Sigfússyni, að vegna utanvegaakstursins og spjalla á landi þá væri skynsamlegra að stytta fremsta tímabilið. En þetta eru tvö mál sem skoða þarf. Ég vil ítreka að það er ekkert sem bendir til þess í augnablikinu að það þurfi yfirleitt að grípa til aðgerða vegna rjúpunnar sjálfrar, þrátt fyrir að hún sé í lægð.

Hins vegar er það vandamál sem snýr að okkur núna og blasir við vegna utanvegaaksturs. Það er hins vegar ekki nýtt vandamál og á ekkert endilega við einmitt núna þó að auðvitað séu margir uppi á hálendinu að skjóta. Það á við um utanvegaakstur yfirleitt, allt sumarið þess vegna. Menn geta t.d. sveigt hver sína leiðina fram hjá fyrirstöðu og búið til nýja vegarslóða. Landmælingar Íslands og Vegagerðin eru að kortleggja þetta. Það er verið að vinna að þessu frekar hratt og ég býst við því að við höfum einhver svæði kortlögð þegar á næsta ári. Þannig er hugsanlegt að í upphafi næsta rjúpnaveiðitímabils verðum við með einhver svæði kortlögð þannig að við getum farið að taka fastar á þeim varðandi utanvegaakstur.