2001-10-18 10:34:58# 127. lþ. 14.1 fundur 53. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 120/2001, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 127. lþ.

[10:34]

Frsm. efh.- og viðskn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um heimild ríkissjóðs til þess tímabundið að takast á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika.

Frv. sem hér er til umræðu er lagt fram í því skyni að staðfesta bráðabirgðalög sem sett voru 23. september sl. Með bráðabirgðalögunum tókst ríkissjóður á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem íslenskir flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns sem hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika.

Bráðabirgðalögin voru sett í framhaldi af því að vátryggjendur um allan heim sögðu upp ábyrgðartryggingum flugrekenda vegna hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september sl.

Í bráðabirgðalögunum var gert ráð fyrir því að tryggingin sem ríkissjóður veitti mætti ekki gilda lengur en til 25. október 2001. Nú hefur hins vegar komið í ljós að vátryggjendur eru ekki enn farnir að bjóða fullnægjandi ábyrgðartryggingar. Því er nauðsynlegt að framlengja gildistíma tryggingar ríkissjóðs enn um sinn og er lagt til að hún geti staðið allt til ársloka 2001. Í þessu sambandi bendir nefndin jafnframt á að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur veitt aðildarríkjum sambandsins heimild til að framlengja veitta tryggingavernd allt til næstu áramóta ef það verður talið nauðsynlegt.

Nefndin leggur áherslu á að henni verði gerð grein fyrir því sem allra fyrst hvort og þá hvernig tekist hafi að takmarka ábyrgð ríkissjóðs eins og áform eru uppi um. Nefndin óskar jafnframt eftir upplýsingum um hvort önnur tryggingavernd bjóðist áður en framlenging ábyrgðarinnar tekur gildi 25. október nk. og hvort aðrar þjóðir hafi þá framlengt heimild ríkissjóðs viðkomandi lands til að veita tryggingaverndina með svipuðum hætti og hérlendis.

Nefndin leggur einróma til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.