Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 11:11:17 (718)

2001-10-18 11:11:17# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[11:11]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hæstv. heilbrrh. þá svo að hér sé um þá stefnumörkun að ræða í þessu frv. að alvara sé á bak við þann texta að daggjöld skuli ákveðin í samráði við viðkomandi hjúkrunarheimili eða daggjaldastofnanir.

Þetta er mjög mikilsvert mál vegna þess að því miður hafa, eins og komið hefur fram í máli mínu áður, þessar daggjaldastofnanir átt í verulegum rekstrarerfiðleikum á umliðnum árum vegna þess að utanaðkomandi áhrif hækkana hafa ekki verið teknar inn í þann daggjaldagrunn sem stuðst hefur verið við. Ég tel að það hafi verið afar slæmt er hin svokallaða daggjaldanefnd, árið 1991 ef ég man rétt, var aflögð og þáv. heilbrrh. tók þetta allt í sínar hendur. Sú ákvörðun fór fram án nokkurs samráðs við hjúkrunarheimili.

En hér er boðuð ný stefna og ég fagna því ef heilbrrn. ætlar að taka þá stefnu að hafa samráð við hjúkrunarheimilin og horfa á rekstrarumhverfið eins og það er í reynd. Það er mjög erfitt fyrir sjálfseignarstofnanir að taka úr eigin sjóðum ár eftir ár til að reka hjúkrunarheimilin líkt og verið hefur undanfarin ár. En ég fagna því og er sammála heilbrrh. Auðvitað eigum við að vinna að þessu sameiginlega með heilbrigðisstofnununum, að daggjöldin séu sönn og rétt og menn taki hvorki of lítið né of mikið fyrir þá þjónustu sem veitt er. En heilbrrh. þarf líka að vega og meta eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra, þ.e. hvaða þjónusta er veitt. Það á ekki að borga öllum jafnt. Það á auðvitað að borga eftir þjónustunni. Ég fagna því að hér sé komin ný stefna og ferskir vindar leiki um heilbrrn.