Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 11:47:22 (729)

2001-10-18 11:47:22# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[11:47]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég leyfi mér að fagna sérstaklega þessu frv. sem hæstv. heilbrrh. hefur nú mælt fyrir sem nauðsynlegu framlagi í þágu íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Með frv. er kveðið á um ábyrgð heilbrrh. og stefnumörkun í heilbrigðisþjónustunni og ábyrgð hans og forgangsröðun verkefna innan heilbrigðisþjónustunnar. Þar er jafnframt kveðið á um heimildir heilbrrh. til handa til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið til að stuðla að aukinni hagkvæmni og tryggja gæði heilbrigðisþjónustunnar.

Markmið frv. er fyrst og fremst að tryggja heilbrrh., handhafa framkvæmdarvaldsins í þessum málaflokki, tækin til að samhæfa stjórn þjónustunnar og tryggja að hún sé í samræmi við þau markmið sem að er stefnt og Alþingi hefur sett heilbrigðisþjónustunni með samþykkt heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 á liðnu þingi, sem full pólitísk samstaða var um.

Áætlunin að viðbættum fjárlögum og lögum um heilbrigðisþjónustuna markar nauðsynlegan ramma um það hvernig íslensk heilbrigðisþjónusta skuli vera og jafnframt rammann um hvað hún skuli kosta. Ábyrgðinni á málaflokknum verða að fylgja ótvíræðar heimildir til að starfa, stjórna og skipuleggja innan þess ramma sem Alþingi hefur markað. Og skipulagið ber að byggja bæði fyrst og síðast á hagsmunum og þörfum þeirra sem á þjónustunni þurfa að halda, að ógleymdu því höfuðmarkmiði heilbrigðisþjónustunnar og heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 sem er heilbrigði fyrir alla.

Frv. geymir enga afstöðu til mismunandi rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu. Frv. leggur hvorki grunn að einkavæðingu innan heilbrigðiskerfisins né setur það einkavæðingu nokkrar skorður. Frv. mælir fyrst og fremst fyrir um að samningar við lækna um greiðslur fyrir ferliverk skuli vera á einni hendi, í höndum einnar nefndar sem ráðherra skipi. Frv. er ætlað að breyta því fyrirkomulagi sem nú er, að launa- og verktakagreiðslur til lækna séu ákveðnar á þremur stöðum. Ákvæði frv. gengur út á að samningar um laun lækna verði í höndum tveggja en ekki þriggja og að hægt verði að tryggja nauðsynlega samræmingu.

Herra forseti. Ég á bágt með að sjá einhverjar forsvaranlegar ástæður eða röksemdir fyrir andstöðu við frv., þ.e. ákvæði þess um eina samninganefnd, og held að almennt hljóti því að vera tekið fagnandi nema þar sem ég tel að einhvers misskilnings hafi gætt um efni frv. eða tilgang þess.

Tilgangur heilbrigðisáætlunar er ekki að spara í heilbrigðiskerfinu í þeim skilningi að draga saman þjónustu þó hún byggi m.a. á því að mikil þjóðhagsleg hagkvæmni leiði af því að ná markmiðum hennar. Og því er ætlað að ná með hvers konar efldu forvarnastarfi og fyrirbyggjandi aðgerðum.

Hins vegar verður sífellt að gæta fullrar hagkvæmni gagnvart því gífurlega og sívaxandi fjármagni sem heilbrigðisþjónustan kallar á og sem allar aðstæður, þar á meðal vaxandi aldur þjóðarinnar, sýna að á enn eftir að aukast jafnt og þétt á komandi árum.

Viðfangsefnin og vandamálin sem við er að etja í heilbrigðismálum eru ýmis og þau eru mörg sem eftir er að leysa og þarf að finna lausnir á. En þar sem launin eru langstærsti hluti útgjalda heilbrigðisþjónustunnar þá leiðir þetta hugann m.a. að mönnun hennar.

Fullnægjandi mönnun er ein meginforsenda góðrar heilbrigðisþjónustu og mikilvægasti þátturinn í að ná markmiðum heilbrigðisáætlunar. En heilbrigðisþjónustuna bera uppi aðrar og fleiri stéttir en læknar, ekki síst þá þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilum og annars staðar þar sem aldraðir þurfa á hjúkrun og umönnun að halda.

Sjúkraliðar eru þar ekki þýðingarminnsta fagstéttin, en samkvæmt upplýsingum sem lágu fyrir í vor á ráðstefnu sem haldin var um menntun heilbrigðisstétta og mannaflaspár heilbrigðisþjónustunnar, vantaði sjúkraliða í sem svarar 45% stöðugilda innan heilbrigðisþjónustunnar. Samkvæmt spám um mannaflaþörf, að teknu tilliti meðal annars til breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar á næstu árum, þyrfti innan heilbrigðisþjónustunnar að fjölga um 300 einstaklinga með sjúkraliðaréttindi á hverju einasta ári næstu fimm árin og síðan um 100 sjúkraliða á ári þaðan í frá.

Ef ekki verður brugðist við þessum fyrirsjáanlega skorti, er ljóst að gæði heilbrigðisþjónustunnar munu dragast saman. Til að bregðast við þörfinni fyrir fleiri sjúkraliða til starfa hefur m.a. verið rætt um að sérsmíða þurfi sjúkraliðanámið að þörfum ófaglærðs starfsfólks sem vinnur við aðhlynningu, það þurfi að bæta starfsaðstöðu sjúkraliða og vinna að bættri ímynd starfsins.

Hjá því verður hins vegar aldrei litið að það eru launakjörin sem í boði eru sem ráða ekki minnstu um hver ímynd starfsins er og eru ein meginástæða þess að sífellt færri sækja í nám í þjónustu á sviði umönnunar og aðhlynningar hvers konar, þ.e. í hin dæmigerðu kvennastörf. Þetta tel ég að hafi ekki minna að segja, þ.e, hvernig við stöndum að því að fjölga í þessari stétt, en þau ákvæði sem frv. fjallar um og kemur að kjaramálum lækna.

En ég geri ráð fyrir að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. heilbr.- og trn. og ég vænti að þar fái það vandaða og gagngera meðferð.