Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 12:10:57 (732)

2001-10-18 12:10:57# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[12:10]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er bara eitt sem við hv. þm. Ásta Möller erum sammála um og það er að heilbrigðisþjónustan eigi að vera samfélagsþjónusta. Um annað held ég að við séum mjög á öndverðum meiði. Það dugir ekki að segja að þetta hafi verið u.þ.b. þannig að sjúklingar borgi 15% og að hlutfallið sé lágt vegna þess að þetta snýst auðvitað um af hverju hlutfallið er. Hverjir sjá um verðlagninguna? Hvernig verður verðlagning til? Ég hef verið ágæt í stærðfræði og er dálítið stolt af því og það fær mig enginn til að trúa því að betra sé að reisa fyrst stór og glæsileg sjúkrahús og búa þau góðum skurðstofum en síðan komi einhverjir aðrir og byggi skurðstofur t.d. úti í bæ. Þeir eru fram á miðjan dag á sjúkrahúsinu og nota stofurnar þar en fara síðdegis út í bæ og nota stofurnar þar. Þetta eru a.m.k. tveir steinkumbaldar. Það er a.m.k. tvöfalt sett af tækjum. Auðvitað er verið að gera þetta af því að verðlagningin er tvenns konar. Og hver borgar? Samfélagið. Það er mjög einfalt.

Auðvitað var sjúkrahúsið sem ég var að nefna og sem ekki telur sig hafa efni á því að hætta um miðjan dag að nýta það sem kostar eitthvað og hefur verið fjárfest, einkasjúkrahús. En það þýddi ekkert að fara með reikningana þaðan inn í einhverja tryggingastofnun, enda kemur þangað fólk alls staðar að úr heiminum og borgar fúlgur fyrir.

Það ætti frekar að vera umhugsunarefni fyrir þann flokk sem alltaf er að tala um einkarekstur að reyna að skoða það þá frekar að stofna slíkt sjúkrahús hér þar sem þeir sem vilja vera í einkarekstri geta tekið til sín sjúklinga alls staðar að úr heiminum og látið þá borga fyrir þjónustuna. Af hverju þarf að stunda þennan pilsfaldakapítalisma í samfélagsþjónustunni hjá okkur?