Löggæslan í Reykjavík

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 13:36:59 (741)

2001-10-18 13:36:59# 127. lþ. 15.95 fundur 80#B löggæslan í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[13:36]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Tilefni þessarar utandagskrárumræðu eru málefni lögreglunnar í Reykjavík sem iðulega hafa komið til umræðu á undanförnum missirum. Mér þykir miður að enn einu sinni er opnuð umræða um löggæslumálin í borginni undir neikvæðum formerkjum. Í starfi mínu sem dómsmrh. hef ég varið stærstum hluta í málefni sem tengjast löggæslunni.

Eitt mikilvægasta einkenni þess að löggæslumál séu í góðu horfi er að ákveðin öryggistilfinning sé merkjanleg hjá almenningi. Ég hef þá trú að hinn almenni borgari í Reykjavík og í nágrannasveitarfélögunum telji öryggi sínu ágætlega borgið og að lögreglan standi sig mjög vel í sínu starfi. Raunar er þetta staðfest í nýlegri skoðanakönnun sem embætti lögreglustjórans í Reykjavík stóð fyrir. Það er hins vegar dapurlegt að sú umræða sem hér er vakin með órökstuddum fullyrðingum um bágborið ástand löggæslunnar er fyrst og fremst til þess fallin að grafa undan þeirri öryggistilfinningu sem borgararnir hafa.

Ég vísa því algerlega á bug að ófremdarástand ríki í löggæslumálum borgarinnar. Vandi miðborgarinnar sem margir ræða um á allt aðrar rætur. Borgaryfirvöld sem hafa fullt ákvörðunarvald um stefnumótun í veitingahúsastarfsemi miðborgarinnar, t.d. um opnunartíma og veitingar áfengisleyfa, virðast hafa misst stjórn á þróun mála og neita að horfast í augu við vandann en krefjast síðan úrbóta frá ríkinu. Nefna má að vínveitingaleyfum hefur fjölgað um ríflega 60% í miðborginni frá því að R-listinn komst til valda sem, ásamt tilraunum með opnunartímann, hefur skapað vanda sem bregðast verður við.

Ég hef margoft bent á að borgaryfirvöld geti beitt með markvissari hætti þeim úrræðum sem þegar eru til staðar í lögum til að stemma stigu við vandamálum í veitingarekstri miðborgarinnar auk þess sem endurskoðun á lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar stendur fyrir dyrum í ljósi nýrrar reglugerðar. Loks skal bent á að þegar er starfandi samstarfsnefnd lögreglu og borgaryfirvalda þar sem unnt er að ræða vandamál sem tengjast ástandinu í miðbæ Reykjavíkur. Nefndin hefur lagt fram tillögur sem unnið verður að á næstunni og koma til skoðunar í dómsmrn. Ekkert skortir því á samstarf hvað þetta snertir.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir reisir allan sinn málflutning um svokallað lágmarksþjónustustig á vinnuskjölum sem ráðuneytinu bárust frá lögreglunni í Reykjavík í þarsíðustu fjárlagavinnu. Raunar talaði þingmaðurinn áður um öryggismörk en hefur sem betur fer greinilega látið af þeirri orðanotkun þegar sýnt þótti að hún væri byggð á misskilningi. Það er afar merkilegt að þingmanninum kom á óvart að ríkisstofnanir gera ýtrustu kröfur í fjárlagavinnu. Þingmaðurinn var ráðherra í sjö ár og ætti að þekkja betur til. Er nema von að menn velti því fyrir sér hvort þetta sé leikaraskapur eða hefur hv. þm. öllu gleymt?

Kjarni málsins er sá að lögreglan í Reykjavík er afar öflug. Hún sinnir störfum sínum vel og hefur verið að eflast á síðustu missirum. Það sýnir aukinn málafjöldi á sviðum sem standa og falla með frumkvæðisvinnu lögreglumanna, t.d. varðandi umferðar- og fíkniefnabrot þar sem lögreglan hefur sýnt mikinn og góðan árangur.

Það er rétt að lögreglan í Reykjavík á við tímabundinn rekstrarvanda að stríða sem krefst þess að embættið gæti aðhalds út þetta rekstrarár. En eins og fram hefur komið er reiknað með að embættinu verði gert kleift að fjölga aftur lögeglumönnum um áramótin þegar nýr árgangur útskrifast úr Lögregluskólanum.

Á undanförnum árum hafa fjárveitingar til lögreglunnar í landinu, og þá sérstaklega til lögreglustjórans í Reykjavík, verið hækkaðar verulega í samræmi við áherslu ríkisstjórnarinnar í baráttu gegn fíkniefnum. Frá árinu 1997 hafa fjárveitingar verið hækkaðar um ríflega 55 millj. kr. til þess að bæta 13 fíkniefnalögreglumönnum til starfa við þennan málaflokk. Nýverið var bætt við embættið 5 fíkniefnalögreglumönnum sem sinna götueftirliti og hefur starf þeirra þegar borið góðan árangur hér í borginni.

Þá eru ótaldar sérstakar fjárveitingar, hátt í 50 millj., sem runnið hafa til rannsókna umfangsmikilla mála og tækjakaupa. Á næsta ári munu fjárveitingar til embættisins enn hækka til þess að fjölga lögreglumönnum í hverfalöggæslu. Ég hef lagt sérstaka áherslu á þennan málaflokk enda eiga afbrot sér líka stað í hverfum borgarinnar og þar fer fram hið raunverulega forvarnastarf gagnvart börnum og ungmennum. Haldið verður áfram á sömu braut. Ég hef fullan hug á því að styrkja löggæsluna enn frekar.

Herra forseti. Allri aukningu fjárframlaga eru hins vegar settar skorður af því mikilvæga markmiði ríkisstjórnarinnar að halda útgjaldaaukningu ríkisins í skefjum. Það á hins vegar ekki að koma á óvart að virðulegur þingmaður Jóhanna Sigurðardóttir hafi lítinn skilning á því. Þjóðarskútan væri löngu komin á hliðina ef allar útgjaldatillögur hv. þm. og félaga hennar í þingflokki Samfylkingarinnar hefðu náð fram að ganga.