Löggæslan í Reykjavík

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 13:51:05 (746)

2001-10-18 13:51:05# 127. lþ. 15.95 fundur 80#B löggæslan í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Mergurinn málsins er sá að lögreglan í Reykjavík er of fámenn og henni er skammtað of lítið fjármagn. Þessi umræða utan dagskrár á rót að rekja til þessarar staðreyndar og til niðurskurðar á yfirvinnu lögreglunnar sem mátti helst ekki ræða hér á Alþingi. Ég kann hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þakkir fyrir að taka þetta mál og halda því uppi á yfirborðinu.

Mér finnst ekki neikvætt að taka málin upp með þessum hætti. Mér finnst það jákvætt og mér finnst það ábyrgð, og ef það er staðreynd að við búum ekki við öryggi í borginni á að ræða það, að sjálfsögðu. Hitt finnst mér alvarlegra ef við ætlum að innræta fólki falska öryggiskennd.

Hv. þm. Ásta Möller vísaði í samanburð við norræn ríki. Ég hef einnig samanburðartölur. Sl. sumar birtust í bresku dagblaði umkvartanir lögreglunnar í London um mannfæð en þar eru 290 íbúar um hvern lögreglumann og til samanburðar var bent á að í New York væri 161 íbúi um hvern lögreglumann, í Berlín 124 um hvern lögreglumann og í Chicago 211 um hvern lögreglumann. Einnig voru tínd til óhagstæðari dæmi, Manchester, 376. Hér eru 423 íbúar um hvern lögreglumann og ef við aðeins tökum þá lögreglumenn sem eru sýnilegar á götum úti er talan 745, og það hefur sigið á ógæfuhliðina á síðustu árum.

Árið 1984 voru íbúar sem tilheyrðu umdæmi lögreglunnar í Reykjavík 88 þúsund talsins. Nú eru þeir 123 þúsund og þessar hlutfallstölur sem ég vitnaði hér í eru orðnar miklu óhagstæðari en þær voru fyrir hálfum öðrum áratug. Á þessum málum verður að taka.