Löggæslan í Reykjavík

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 13:53:23 (747)

2001-10-18 13:53:23# 127. lþ. 15.95 fundur 80#B löggæslan í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[13:53]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það er bæði rétt og skylt í hvert skipti sem slíkt kemst til tals í þinginu, að auka þurfi fjárframlög til hinna og þessara hluta, að taka það skýrt og skorinort fram að það er einlægur vilji og ásetningur að standa vörð um ríkissjóð. Við höfum áður lýst yfir að ekki stendur til að hækka fjárlögin í meðferð þingsins. Það verður þannig. Við leggjum meira til öryggismála en flestar aðrar þjóðir. Ég er ekki fær um að dæma um hvernig við förum með það en það verður að duga, þannig er það og við vitum það vel. Við höfum verið að efla löggæslu mjög mikið á Íslandi. Það hafa verið miklar kröfur um að berjast gegn aukinni fíkniefnanotkun. Það er rétt, við höfum gert það. Við berjumst gegn framboðinu en menn verða að vita það og muna að það er líka baráttan gegn eftirspurninni. Hún skiptir öllu máli. Sú víglína liggur inn á heimili hvers einasta Íslendings. Það er ekki það að við sækjum peninga til ríkisins. Þar verðum við að standa saman og átta okkur á því að leiðin er ekki sú að krefja ríkið um meiri framlög. Það er ekki leiðin. Þjóðfélagið verður sjálft að taka þátt í þessu grafalvarlega stríði. Öðruvísi töpum við því.