Löggæslan í Reykjavík

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 13:59:23 (750)

2001-10-18 13:59:23# 127. lþ. 15.95 fundur 80#B löggæslan í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vek athygli á því að yfirlæti og hroki ráðherrans er með þeim hætti að hún svarar ekki einni einustu af fimm spurningum sem lagðar voru fyrir hana og voru tilefni þessarar utandagskrárumræðu. (Dómsmrh.: Það er ekki rétt.) Staðreyndin er nefnilega sú að ráðherrann er með allt niður um sig í þessum málum. Hún horfir á málin úr sínum fílabeinsturni og gerir sér ekki grein fyrir ástandinu í löggæslumálum í borginni, og það er auðvitað grafalvarlegt ef ráðherra dómsmála, yfirmaður lögreglunnar, er ekki starfi sínu vaxin, þegar hún þekkir ekki vandann. Veit ráðherrann ekki um vaxandi ofbeldi sem hér er, sem er alvarlegra ofbeldi en við höfum áður þekkt? Þekkir ráðherrann ekki vaxandi fíkniefnaneyslu og aukna slysahættu vegna aukins umferðarþunga? Á sama tíma er verið að fækka verulega í lögreglunni í Reykjavík, svo mikið að 35 lögreglumenn vantar til að halda uppi lágmarksþjónustu, og ég fullyrði og sagði það hér áðan að löggæslan hér er undir öryggismörkum. Það vantar 35 löggæslumenn til að halda uppi lágmarksþjónustu að mati lögreglustjórans í Reykjavík. Og hvað ætlar ráðherrann að gera? Bæta við tveim lögreglumönnum á næsta ári. Það er allt og sumt. Það er ekkert skrýtið þótt landsfundur Sjálfstfl. hirti ráðherrann og skipi henni að styrkja löggæsluna í Reykjavík og hætta þessum sparnaði sem bitnar á borgarbúum.

Þetta eru staðreyndir málsins sem við stöndum frammi fyrir og það er alvarlegt, herra forseti, þegar ráðherrann hefur ekki meiri skilning á vanda löggæslunnar hér í borginni en lýsir sér í málflutningi hennar. Mér heyrist á máli ráðherrans að það sé raunverulega dagskipun úr Valhöll að vera hér í heilögu stríði við borgaryfirvöld í hverju málinu á fætur öðru. Því miður bitnar þetta á saklausum borgarbúum, t.d. hér í löggæslunni.

Ekki er amast við því þó að settir séu miklir peningar, t.d. í Kópavog, til þess að greiða fyrir því að opna Smáralindina, bæði í löggæslunni og í vegaframkvæmdum. En hér er ráðherrann með allt niður um sig í þessu máli og því miður bitnar það á borgarbúum. Þetta er alvarleg staða, herra forseti.