Löggæslan í Reykjavík

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 14:01:42 (751)

2001-10-18 14:01:42# 127. lþ. 15.95 fundur 80#B löggæslan í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[14:01]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Það hefur verið ótrúlegt að þurfa að hlusta á ræðu hv. málshefjanda. Mér var raunar bent á að hún hefði í útvarpsviðtali núna í hádeginu kosið að lýsa orðum mínum um vanda miðborgarinnar sem þvælu. Ég vísa þessum ummælum auðvitað til föðurhúsanna og furða mig á því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem er þingmaður Reykvíkinga, skuli kjósa að haga málflutningi sínum á þennan hátt, bæði í ræðu og riti, (Gripið fram í.) um málefni löggæslunnar í Reykjavík og um miðborgina. Ég tel að lögreglan í Reykjavík hafi staðið sig mjög vel í sínum störfum (JóhS: En ráðherrann?) og það eru auðvitað afskaplega erfið störf sem þeir sinna og krefjandi. Sannarlega vil ég styrkja starf þeirra enn frekar og fagna því nýgerðum kjarasamningi þar sem náðist samþykkt um að lækka starfslokaaldur lögreglumanna niður í 65 ára aldur.

Þessa dagana stendur yfir vinna á milli Landssambands lögreglumanna og sýslumannsembættanna um nánari útfærslu kjarasamnings sem ráðuneytið hefur ekki beina aðkomu að. Sú vinna hefur því miður gengið hægar en búist var við en vonandi næst fljótlega samkomulag. Þar með hef ég svarað síðustu spurningu hv. fyrirspyrjanda en þær voru margar.

Þá vil ég geta þess að náðst hefur fram aukning framlaga til Lögregluskólans sem gerir honum kleift að fjölga nemendum. Vegna skorts á fagmenntuðum lögreglumönnum er öflugur skóli forsenda fyrir frekari fjölgun í lögregluliðum landsins.

Málflutningur stjórnarandstöðunnar hér er ekki síst sérkennilegur í ljósi þess að lögreglan á Íslandi stendur vel í samanburði við nágrannaríki okkar. Bent hefur verið á að í OECD-samanburði frá 1998 leggjum við Íslendingar næstmest af Norðurlöndunum af mörkum þannig að ég fullyrði að málefni lögreglunnar eru í góðu lagi (GÁS: ...tala við lögregluna.) en auðvitað má alltaf betur gera og að því stefni ég.