Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 14:26:50 (755)

2001-10-18 14:26:50# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[14:26]

Flm. (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Hér er lagt fram frv. til laga um lögleiðingu ólympískra hnefaleika. Þetta frv. var til umfjöllunar á 126. löggjafarþingi en varð þá ekki útrætt og er lagt fram að nýju óbreytt.

Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Drífa Hjartardóttir, Ásta Möller, Guðmundur Árni Stefánsson, Einar Már Sigurðarson, Vilhjálmur Egilsson, Einar Oddur Kristjánsson, Svanfríður Jónasdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Guðjón A. Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Gísli S. Einarsson, Hjálmar Árnason, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Kjartan Ólafsson og Sigríður Ingvarsdóttir.

Frv. er svohljóðandi:

,,1. gr. Heimil er keppni og sýning á ólympískum hnefaleikum. Enn fremur er heimilt að kenna ólympíska hnefaleika.

2. gr. Heimil er sala og notkun hnefaleiksglófa og annarra tækja sem ætluð eru til þjálfunar í ólympískum hnefaleikum.

3. gr. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setur reglur um ólympíska hnefaleika.

4. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Frá árinu 1956 hafa hnefaleikar verið bannaðir hér á landi en fram að þeim tíma voru þeir allnokkuð iðkaðir. Með frumvarpi þessu er lagt til að ólympískir hnefaleikar verði lögleiddir og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setji reglur um íþróttina. Rétt er að taka fram að ólympískir hnefaleikar eru keppnisgrein á Ólympíuleikum og hafa verið það lengi. Algjört einsdæmi er að ólympísk keppnisgrein sé bönnuð með sérstakri löggjöf. Aðild að Ólympíuleikum felur í sér viðurkenningu á þeim greinum sem keppt er í á leikunum hverju sinni.

Gera verður skýran greinarmun á annars vegar ólympískum hnefaleikum, með öðrum orðum áhugamannahnefaleikum, og hins vegar atvinnumannahnefaleikum sem eru stundaðir í öllum heimsálfum. Reglur og öryggiskröfur greinanna eru afar ólíkar. Þannig er skylt að nota höfuðhlífar í ólympískum hnefaleikum og hver leikur stendur í þrjár lotur í stað allt að tólf lotum í atvinnumannahnefaleikum. Alvarleg slys eru þekkt í atvinnumannahnefaleikum en þannig slys hafa ekki orðið í áhugamannahnefaleikum vegna hinna ólíku reglna sem um þá gilda. Samkvæmt sænskri rannsókn frá árinu 1990, sem Yvonne Haglund læknir gerði á því hvort varanlegur skaði gæti orðið á heila af völdum áhugamannahnefaleika, virðist svo ekki vera sé fylgt ströngum áhugamannareglum eins og í Svíþjóð.

Lögð er áhersla á að það á að vera á valdi hvers einstaklings að ákveða hvaða íþrótt hann kýs að stunda. Að öðru leyti standa óbreytt lög nr. 92/1956 sem banna hnefaleika í atvinnuskyni.

Eins og segir í grg. með frv. voru hnefaleikar bannaðir árið 1956 vegna meiðsla sem urðu við iðkun þessarar íþróttar. Það voru sem sagt ekki ólympískir hnefaleikar eins og hér er verið að leggja til heldur atvinnumannahnefaleikar.

[14:30]

Meginmunurinn á þessum tveimur greinum er verulegur.

1. Í áhugamannahnefaleikum eða ólympískum hnefaleikum eru notaðar höfuðhlífar og þykkari hanskar sem eru sérhannaðir til að draga úr skaðsemi höggsins.

2. Í áhugamannahnefaleikum eru þrjár þriggja mínútna lotur en í atvinnumannahnefaleikum geta lotur verið allt að 12 sinnum 3 mínútur.

3. Ólympískir hnefaleikar snúast um að skora stig. Engin aukastig eru gefin fyrir að slá andstæðinginn niður eða rota hann. Hugtakið ,,tæknilega sleginn út`` eða TKO er ekki til og minna en 1% allra ólympískra hnefaleika endar með rothöggi. Ólympískir hnefaleikar, júdó, karate, glíma og ýmsar fleiri bardagaíþróttir eru fyrst og fremst hugsaðar sem sjálfsvarnaríþróttir. Ólympískir hnefaleikar byggjast ekki á því að sigra með því að meiða andstæðinginn eins og margir andstæðingar ólympískra hnefaleika halda fram, heldur byggist sigurinn á því að vinna á stigum og vörnin er mjög mikilvægur þáttur í ólympískum hnefaleikum, ekki bara sóknin.

4. Meiðsli í ólympískum hnefaleikum eru mun minni eða allt að fimmtíufalt minni en í atvinnumannahnefaleikum.

5. Að meðaltali vankast áhugamannahnefaleikari í meira en hundruðustu hverri keppni og þá má hann ekki keppa í þrjá mánuði þar á eftir. Slíkar reglur eru ekki í atvinnumannahnefaleikum.

6. Áhugamannahnefaleikari má ekki keppa þegar hann er orðinn 33 ára eða eldri.

7. Læknisskoðun er skyld fyrir og eftir keppni.

8. Skylda er að hafa sérstaka viðurkennda keppnisbók og það er mjög sjaldgæft í öðrum íþróttagreinum.

9. Dómgæsla og reglur miða að því að vernda hnefaleikarann eins og framast er kostur. Leikur er stöðvaður ef annar keppandinn hefur yfirburði. Mjög hart er tekið á ólöglegum höggum og ef keppendur verða uppvísir að slíku er þeim tafarlaust vísað úr keppni.

10. Ólympískir hnefaleikar hafa verið keppnisgrein á Ólympíuleikum síðan 1904 og hafa verið mjög vinsæl grein og til stendur að taka upp hnefaleika fyrir konur á næstu Ólympíuleikum.

11. Ólympískir hnefaleikar eru sjálfsvarnaríþrótt líkt og glíma, karate, júdó og fleiri íþróttir sem heita austrænum nöfnum. T.d. er leyfð kennsla og iðkun í jeetkunedo sem er tælensk íþrótt sem kallast kickbox á ensku. Þar er barist með hönskum eins og í hnefaleikum og einnig eru leyfð spörk í þeirri grein. Í annarri austurlenskri sjálfsvarnar\-íþrótt, taekwondo, er barist með berum hnefum og fótum og meiðslatími er mun hærri en í ólympískum hnefaleikum, en taekwondo er ólympísk íþrótt og mjög vinsæl keppnisgrein hér á landi. Ég hef ekki heyrt einn eða neinn í þessum sal né þá læknasamtök koma með tillögur um að banna þá íþrótt. Þá má nefna líka kumite, sem er bardagahluti karateíþróttarinnar, þar sem hendur og fætur eru notaðar. Hafi menn verið að horfa á sjónvarp á sunnudaginn var þá hafa þeir getað séð hvernig kumite fer fram. Í þeirri íþróttagrein eru menn með hanska á höndum og notaðar eru hendur og fætur. Í því tilviki er ekki meiningin að keppendur snertist nema lítillega. En þetta lítillega hefur í för með sér nefbrot, kinnbrot, rifbeinsbrot og allt þar á milli, þannig að meiðslatíðni í þessum íþróttagreinum er mjög há.

12. Atvinnuhnefaleikar eru bannaðir í nokkrum löndum, m.a. Svíþjóð og Noregi. En ólympískir hnefaleikar eru hvergi bannaðir nema á Íslandi, hvergi í heiminum bannaðir nema á Íslandi sem er eiginlega mjög sérstakt. Allar hinar greinarnar sem ég tíndi til eru hins vegar leyfðar.

Þeir sem mest hafa talað á móti ólympískum hnefaleikum halda því fram að þessi íþrótt sé hættuleg iðkendum, að meiðsli séu tíð og geti verið varanleg. Rétt er að fara yfir nokkur atriði í þessu sambandi en gerðar hafa verið margar rannsóknir á ólympískum hnefaleikum.

Árið 1960 skipaði Norðurlandaráð nefnd til að rannsaka hversu áhættusamt væri að stunda ólympíska hnefaleika. Margir læknar voru kallaðir til verkefnisins ásamt fleiri fagmönnum. Niðurstaða nefndarinnar var að meiðsl í ólympískum hnefaleikum væru alls ekki meiri en í öðrum íþróttagreinum og ekki væri ástæða til að banna íþróttina.

Árið 1985 fól sænska þingið sænska íþróttasambandinu að láta fara fram á rannsókn á öryggi við iðkun áhugamannahnefaleika í Svíþjóð til að komast að því hvort fyrrverandi eða núverandi áhugahnefaleikarar hefðu orðið fyrir nokkrum varanlegum heilaskemmdum. Sænska íþróttasambandið fékk færustu sérfræðinga á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi til að gera þessar rannsóknir. Þær fóru fram á íþrótta-, taugalækninga- og bæklunardeild sjúkrahússins. Eins og áður sagði var það dr. Yvonne Haglund sem var með þessar rannsóknir en hún varði doktorsritgerð sína um þetta mál árið 1990. Markmið rannsóknanna var að meta varanlegar heilaskemmdir sem hlutust í áhugamannahnefaleikum í Svíþjóð frá 1970 eða um 15 ára skeið.

Rannsakaðir voru 50 fyrrverandi áhugahnefaleikar, 25 sem höfðu háð marga keppnina, ,,high match boxers``, og 25 með tiltölulega fá mót að baki. Hnefaleikararnir voru bornir saman við tvo hópa, 25 knattspyrnumenn og 25 frjálsíþróttamenn á sama aldursskeiði. Þeir voru síðan allir bornir saman við fjórða hópinn sem samanstóð af venjulegu fólki héðan og þaðan. Þátttakendur voru spurðir um íþróttaferil sinn, menntun, atvinnu, hjúskaparstétt, snertingu við lífræn leysiefni, neyslu áfengis eða lyfja og lifnaðarhætti yfirleitt.

Helstu niðurstöður rannsókna voru að verulegur munur kom fram eftir félagslegri stöðu. Hnefaleikar voru stundaðir af mönnum sem voru minna menntaðir og stunduðu sjaldnar stjórnunarstörf. Þeir neyttu einnig áfengis og lyfja í ríkari mæli en þó mest áður en þeir hófu að iðka hnefaleika. Þegar rannsóknin var gerð var líf allra hnefaleikaranna og samburðaraðilanna í traustum skorðum félagslega.

Allir rannsóknaraðilar gengust undir venjulega læknisskoðun. Allir þátttakendur gengust undir víðtæka taugafræðilega rannsókn þar á meðal minni háttar geðrannsókn. Einn hnefaleikari sem var með mörg mót að baki og þrír knattspyrnumenn sýndu lítils háttar frávik frá eðlilegu ástandi. Ég endurtek: Einn hnefaleikari og þrír knattspyrnumenn sýndu lítils háttar frávik frá eðlilegu ástandi en enginn verulegur munur fannst þó á hópnum, allir sýndu normal prófgildi. Taugarafrænar rannsóknir sýndu engan marktækan mun á hópnum og engin merki um varanlegar heilaskemmdir komu fram hjá hnefaleikurum eða samanburðarhópunum.

Einnig var gerð taugasálfræðileg rannsókn. Notað var staðlað taugasálfræðipróf sem náði til snertiskyns, hreyfifærni, vitsmuna og minnisverkefna. Aðeins á einu sviði kom fram munur á hópunum. Hópurinn með mörg mót að baki gat síður bankað með fingrunum en hinir. Veruleg fylgni fannst á milli fjölda móta, lengdar hnefaleikaferils og fingraleikni. Fingraleikni var ekki undir lágmarki nema hjá tveimur hnefaleikurum. Enginn hnefaleikaranna var álitinn hafa ákveðin merki um skerðingu andlegs atgervis. Engin merki fundust um verulega taugasálfræðilega skerðingu.

Niðurstaðan úr rannsókninni sem gerð var fyrir Norðurlandaráð og rannsókninni sem gerð var á Karólínska sjúkrahúsinu leiddu til hliðstæðrar niðurstöðu: Það á ekki að banna ólympíska hnefaleika.

Rannsóknir hafa einnig verið gerðar í öðrum löndum um sama efni, t.d. á Írlandi, Bretlandi og Finnlandi. Þær rannsóknir sýndu að ólympískir hnefaleikar leiddu ekki til heilaskaða og að hætta á áverkum af völdum ólympískra hnefaleika væri tiltölulega lítil í samanburði við aðrar íþróttir, áverkar á höfði sem ættu sér stað í keppni væru aðallega vægur heilahristingur.

Könnun á Írlandi árin 1992--1993 sýndi að ólympískir hnefaleikar leiddu ekki til heilaskaða, að hætta á áverkum af völdum ólympískra hnefaleika væri tiltölulega lítil í samanburði við aðrar íþróttir.

Í grein úr þýska fagtímaritinu Sportsverletzung, ,,Sportschaden`` sem birtist í mars 1999, er greint frá úttekt á slysum vegna sjálfvarnaríþrótta og byggist hún á athugunum á sjúkraskýrslum og skýrslum tiltekins tryggingafélags yfir 15 ára tímabil. 137 slys voru skráð sem áttu sér stað í þessum íþróttum. Af þeim áttu 47 tilvik sér stað í júdó, 44 í karate eða kumite, 22 í fjölbragðaglímu (wrestling), 9 í taekwondo, 7 í hnefaleikum og færri tilvik í öðrum tilteknum íþróttagreinum sem falla undir sjálfsvarnaríþróttir.

Í frétt sem birtist í breska læknatímaritinu The British Medical Journal í ágúst árið 1998 kemur fram að samkvæmt slysaskráningu í Hollandi á tíu ára tímabili, frá 1987--1996, voru skráð 18 þúsund slys þar sem heilaáverkar komu við sögu. Í 4.300 tilvikum urðu slysin í knattspyrnu, í 3.400 tilvikum í reiðmennsku og í 70 tilvikum í hnefaleikum.

Í annarri grein sem birtist í sama tímariti í febrúar 1998 var bent á að af dauðsföllum við íþróttaiðkun í Bretlandi á árunum 1986--1992 væru þrjú af völdum hnefaleika, 77 dauðsföll við mótoríþróttir, 69 við flugíþróttir, 54 vegna fjallaklifurs og 28 dauðsföll vegna hestaíþrótta.

Í Bandaríkjunum var gerð rannsókn á tíðni meiðsla í íþróttum. Þar lentu ólympískir hnefaleikar í 71. sæti á listanum.

Þannig er því ekki fyrir að fara að ólympískir hnefaleikar séu mjög hættuleg íþrótt miðað við margar aðrar. Það er ljóst að flestallar íþróttir eru hættulegar, nema kannski að tefla, spila bridge og slíkt sem er hættulaust. Það er ekki hættulaust að leika fótbolta (Gripið fram í.) ef menn ætla að skalla þungan bolta --- ég hef áður farið í gegnum það --- og sérstaklega ef menn skalla hver annan. Sú íþrótt hefur ekki verið bönnuð og enginn komið með tillögu þar um. Þá brysti nú þingmönnum kjarkurinn ef fara ætti að taka þannig á einhverjum slíkum málum eða öðrum sjálfsvarnaríþróttum. Ég hef ekki heyrt eitt orð um það í þessum sal að talað sé um karate, kumite, taekwondo eða aðrar slíkar íþróttir. Ég skora á þingmenn kynna sér málið og horfa á þessar íþróttir.

Hér er verið að tala um að hverfa frá gömlu forsjárhyggjunni sem gengur út á að ríkið þurfi að horfa yfir öxlina á mönnum og segja þeim hvað þeir eiga að gera í hvert skipti. Mín lífsskoðun er bara önnur. Ég er alveg klár á því að sumir hér inni hafa þessa lífsskoðun en ég vil hins vegar að fólk geti valið hvaða íþróttir það stundar. Það hefur ítrekað verið sýnt fram á að ólympískir hnefaleikar eru meðal þeirra íþrótta sem eru hvað hættuminnstar.

Í Bandaríkjunum fara fram mót sem heita Silver Gloves og Golden Gloves þar sem börn og unglingar frá 8 ára og upp í 15 ára keppa. Bardagarnir eru yfir 2.000 og loturnar milli 5 og 6 þúsund og örfá tilfelli hafa komið upp síðustu árin þar sem þörf hefur verið á læknishjálp.

Árin 1997 og 1998, til upplýsingar, voru bardagar í ólympískum hnefaleikum áætlaðir yfir 23 þúsund og þátttakendur tæplega 23 þúsund. Skráð voru 98 meiðsli á öllum þessum mótum Golden Gloves og Silver Gloves í Bandaríkjunum.

Ég hef reynt að rekja það í stuttu máli að hér er ekki um að ræða íþrótt sem er mjög hættuleg. Ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm verðum við náttúrlega að banna allar þær íþróttir sem eru hættulegar. Mikið er um að skráð séu meiðsli í kumite og í taekwondo, sem er gífurlega vinsælt núna meðal ungmenna á Íslandi. Sama á við um kickbox, í reiðmennsku og fótbolta, ég tala nú ekki um að vera í marki í handbolta. Því hefur verið haldið fram af markverði sem var frægur á árum áður að hann hafi orðið fyrir heilaskaða vegna höggs sem hann fékk frá bolta í höfuðið af stuttu færi. Hvar eiga menn þá að draga línuna? Auðvitað er hægt að fara yfir það með fræðilegum rökum að það sé einhver hætta af ólympískum hnefaleikum. Ég er ekki að bera á móti því en ég er að segja að slysatíðni í þessari íþrótt er minni en í flestum öðrum íþróttum. Það er því stóreinkennilegt að við séum eina landið í heiminum sem bannar þetta. Aftur á móti er ég alveg á móti því að hér verði leyfðir atvinnumannahnefaleikar. Það er allt önnur deild. Hnefaleikar nútímans eins og þeir stunda Mike Tyson og hvað þeir heita nú allir þessir kappar. Þar eru á ferð skylmingarþrælar nútímans. Þar er barist upp á líf og dauða. Þar er barist upp á æruna og háar peningaupphæðir. Það eru gladíatorar nútímans. (Gripið fram í.) Það eru ekki ólympískir hnefaleikar og ég er mjög á móti því að það verði iðkað hér. Ég hef þó eins og margir aðrir gaman af því að horfa á það í sjónvarpi, eins og margir andstæðingar ólympískra hnefaleika. Þeir vaka fram eftir á nóttu og horfa á þetta á Sýn, eins ég og fleiri. (Gripið fram í: Allir með bros á vör á eftir.) Já, með bros á vör á eftir. En eins og ég segi þar eru að berjast gladíatorar nútímans.

Hér erum við hins vegar að tala um almenningsíþrótt fyrir unglinga og fullorðna. Þetta er ólympísk grein. Ef menn hafa horft á sjónvarpið sl. vor þegar íslenskir hnefaleikarar fóru til Bandaríkjanna og kepptu þar við áhugahnefaleikara í Minnesota, þá var mjög gaman að fylgjast með því og gaman að sjá hvað þeir stóðu sig vel, landar okkar. Þeir voru þar að keppa við þeirra bestu menn. Þessir íþróttamenn eru hins vegar í skúmaskotum að iðka hnefaleika.

Það hefur líka mjög gott uppeldislegt gildi að stunda þessa íþrótt, kostar mikinn sjálfsaga og hefur hjálpað mörgum unglingnum við að leysa úr vandamálum sínum. Mér finnst þetta orðið hlægilegt. Hér eru seldir hanskar og allt hvað eina til að stunda þessa íþrótt. Hérna stunda menn þetta. (Gripið fram í: Það er bannað.) Já, það er bannað segir einhver. Ég er á móti þeirri forsjárhyggju sem hér hefur ríkt of lengi. Ég held að þetta hafi verið bannað hér árið 1956 á röngum forsendum. Þá var verið að banna atvinnumannahnefaleika en ekki áhugamannahnefaleika.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta í bili en legg til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.