Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 14:48:42 (756)

2001-10-18 14:48:42# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[14:48]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Í grg. með frv. kemur fram sú fullyrðing flutningsmanna að það sé algjört einsdæmi að ólympísk keppnisgrein sé bönnuð með sérstakri löggjöf. Ég vildi gjarnan fá að vita hvort rétt sé með farið. Er þetta einsdæmi í veröldinni, ágætu flutningsmenn?

Ég vil líka spyrja þá hvort þeir telji að framgangur þessa máls muni leiða til góðs. Mun það leiða til þess að ofbeldisverkum í miðborg Reykjavíkur fækki? Mun þetta ekki leiða til fjölgunar ofbeldisverka? Mun ofbeldi minnka og munu menn hætta að greiða hver öðrum kjaftshögg á götum úti og ástunda þetta eingöngu í ætluðu rými? Ég hef haft langt mál um þetta frv., þ.e. þau frv. sem áður hafa verið flutt, og ætla ekki að endurtaka það allt heldur segja þetta og óska eftir því að flutningsmenn geri grein fyrir því hvort þeir séu þess fullvissir og geti lagt fram óyggjandi staðreyndir fyrir því að það sé einsdæmi að á Íslandi sé box bannað.

Í annan stað langar mig að vita hvort þeir telji að þetta muni leiða til þess að ofbeldi í Reykjavík muni minnka eða nánast leggjast af.