Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 14:57:20 (762)

2001-10-18 14:57:20# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[14:57]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta ágæta mál er nú, eins og fyrri ræðumaður sagði, tekið fyrir hér í þriðja skipti þriðja árið í röð. Fyrsta árið var það fellt, í fyrra fékk það mjög rækilegar umsagnir, bæði frá minni hluta menntmn. og heilbr.- og trn., þar sem mælt var gegn samþykkt frv. og var hætt við að setja það í atkvæðagreiðslu af einhverjum dularfullum ástæðum. Nú er það enn á ný komið á kreik og tekið fram fyrir önnur mál til að troða inn á dagskrá á undan málum varaþingmanna sem nauðsynlega þurfa að komast að í dag. Mér virðist vera svolítil boxnáttúra í þessari aðferð og ég vil mótmæla henni.

Hv. þm. Gunnar Birgisson telur ekki alveg öruggt að boxæfingar muni hvetja til frekara ofbeldis sem því miður er þó farið að gæta víða. Ég er hins vegar alveg sannfærð um að það að fara að æfa árásaríþrótt hvetur til aukins ofbeldis. Ég vil minna á að þegar box var bannað árið 1956 var ein af ástæðunum sú að hópur ungra manna í Reykjavík sem æfði box var farinn að sitja fyrir fólki sem kom út af skemmtistöðum í Reykjavík og slá það kalt. Það var ein af ástæðum þess að þetta var bannað á sínum tíma. Og ég held því miður að mannkyninu hafi ekki farið svo fram á þessum tíma að þessi hætta sé ekki lengur fyrir hendi. Ég held að við eigum að láta það vera að lögleiða box á ný fyrst við bárum gæfu til þess á sínum tíma að banna það. Það eru margar þjóðir sem öfunda okkur af því að við skyldum stíga þetta skref á sínum tíma. Í Noregi hefur verið mikill áhugi á því að banna ólympískt box. Ég veit ekki hvort það verður af því á þessu ári en það hefur staðið til í nokkur ár og er mikill áhugi á því á norska þinginu. Svo mun vera víðar þannig að við erum hér að fara svolítið í öfuga átt við umræðuna í heiminum.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna í dag. Ég mun hins vegar hvetja til að þetta mál fái enn á ný afar vandaða umfjöllun í hv. menntmn.