Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 15:04:18 (765)

2001-10-18 15:04:18# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[15:04]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Þuríður Backman sleppti honum áðan varðandi gerræði stjórnar þingsins í að koma þessu máli á dagskrá. Mér þykir, herra forseti, alvarlegt þegar málum varaþingmanna sem sitja mögulega sinn síðasta dag á Alþingi er ýtt aftur fyrir mál af þessu tagi, sem Alþingi hefur sóað tíma í að vinna að og ræða á tveimur fyrri þingum þessa kjörtímabils. Þó að virðulegur forseti hafi látið í ljós þá skoðun sína áðan að honum sýndist að mál varaþingmannanna kæmust engu að síður að þá gef ég sáralítið fyrir þá sýn virðulegs forseta. Auðvitað hefði virðingar þingsins verið gætt gagnvart varaþingmönnunum og þeirra málum ef þau hefðu af tillitssemi við þá verið sett fram fyrir þetta mál sem allur þingheimur veit að þingmenn vilja gjarnan takast á um.

Þingheimur hefur viljað rífast um þetta mál, herra forseti, á undanförnum tveimur þingum þegar það hefur verið flutt. Nú þurfum við hv. alþm. að ákveða það hver fyrir sig hvort við ætlum að leyfa hv. varaþingmönnum að komast að með sín mál. Að því leyti finnst mér það ákveðið gerræði í stjórn þingsins að láta það í hendur hv. alþingismanna hvort málum hv. varaþingmanna verði hleypt að. Ég er ekki sátt við að sitja uppi með þá ábyrgð því að auðvitað vil ég að þingmál hv. varaþingmanna komist að án þess að þau þurfi að ræða inn í nóttina. Nær hefði verið að ræða þetta mál inn í nóttina.

Herra forseti. Það jaðrar við þráhyggju hv. þm. Gunnars Birgissonar að tala fyrir þessu máli þriðja árið í röð þegar Alþingi hefur í atkvæðagreiðslu fellt það. Hvers vegna lýsir hv. þm. sig ekki bara sigraðan? Nei, hann færist allur í aukana. Hann eflist til muna og safnar fleiri hv. þm. á undirskriftalistann undir málið.

Nú er svo komið að 26% þingmanna flytja málið. Ég segi að það jaðri við þráhyggju og einhvers konar krossferð sem hv. þm. Gunnar Birgisson virðist vera í gagnvart þessu máli. Ég gagnrýndi hv. þm. í fyrra fyrir að hafa ekki einu sinni bætt við ræðuna sína frá 125. löggjafarþingi, þar sem hann einungis las upp greinargerðina. Nú ætla ég að hæla honum, herra forseti, fyrir að ræðan hans þetta árið var þó yfirgripsmeiri og hafði frekari upplýsingar um sjónarmið hans en ræðan sem hann flutti á 126. löggjafarþingi. Það má þó hæla honum, herra forseti, fyrir að hann hefur bætt við málflutning sinn og þarf af leiðandi má segja að hann hafi hækkað í mjög lágum bunka okkar nefndarmanna í hv. menntmn. og hv. heilbr.- og trn. þingsins, þ.e. þeim bunka sem merktur er rök með lögleiðingu ólympískra hnefaleika. Sannleikurinn er auðvitað sá að rökin gegn lögleiðingunni hafa verið miklu sterkari og í miklu hærri bunkum á borðum hv. nefndarmanna.

Það er rangt hjá hv. þm. Gunnari Birgissyni að hér hafi ekki komið fram neinar hugmyndir eða óskir um að banna aðrar árásaríþróttir sem eru stundaðar hér á landi. Hv. þm. hefur þá gleymt þeim ræðum sem fluttar voru hér í fyrra og trúlega hittiðfyrra líka þar sem a.m.k. sú sem hér stendur sagði, og eftir því sem minni mitt rekur til þá töluðu fleiri hv. þingmenn á þeim nótum, að ef það kæmi í ljós og ef það væri staðreyndin að íþróttir á borð við taekwondo, kickbox og --- nú er ég búin að læra nýtt, herra forseti --- kumite, að ef hægt væri að færa sönnur á að þessar íþróttir séu á sama átt skaðlegar og hnefaleikarnir sem valda heilaskaða, duldum höfuðáverkum vegna þess að leyfð eru þung höfuðhögg í greininni, þá hef ég lýst mig reiðubúna, herra forseti, að banna þessar íþróttir líka. Því er rangt með farið hjá hv. þm. sem kom fram í hans ræðu áðan að þetta hefði ekki verið nefnt í umræðunni því að það hefur verið gert.

Herra forseti. Af því að hv. þm. Gunnar Birgisson nefndi í ræðu sinni barnabox þá verður mér allri lokið, herra forseti. Mér þykir ábyrgð foreldra mikil gagnvart því sem börn eru hvött til að gera, ekki bara hér á landi heldur út um allt. Það að heyra hv. þm. tala um það sem eftirsóknarvert að átta ára börn séu af foreldrum sett inn í boxhring til að berja hvert á öðru vekur mér mikinn leiða, herra forseti. Ég mundi óska eftir að sjá ábyrgari foreldrastefnu hér á landi en svo að foreldrar fari að hvetja börn sín til að standa í boxhring og berja félaga sína í höfuðið þar sem rothögg eru ekki bönnuð. Þar sem rothögg gefa líka stig.

Ábyrgð okkar sem foreldra er mjög mikil. Ég spyr hv. þm.: Hvert ættu börn sem hvött yrðu til þess af foreldrum sínum að stunda hnefaleika að leita sér að fyrirmyndum í íþróttinni? Nefni hv. þm. mér einn frægan ólympískan hnefaleikakappa, herra forseti, bara einn. Auðvitað mundu börn ekki sækja sér fyrirmyndir í hóp ólympískra hnefaleikakappa, ó nei. Fyrirmyndin yrði Mike Tyson. Ekki er hann fyrirmynd sem ég mundi vilja sjá börnin mín líta upp til. Dóttir mín sem stundar ballett heldur að Lára Stefánsdóttir ballerína sé merkilegasta manneskjan á jarðríki. Sonur minn sem lærir á saxófón lítur upp til Jóels Pálssonar. Ég er stolt af því að börnin mín skuli ekki líta upp til eða miða sig við Mike Tyson. Ef það er ábyrgð okkar þingmanna að skapa hér uppeldisskilyrði sem eru til fyrirmyndar þá eigum við auðvitað að standa vörð um bannið sem er í gildi á ólympískum hnefaleikum.

Herra forseti. Af tillitssemi við mál hv. varaþingmanna ætla ég ekki að hafa mál mitt lengra. Ég lýsi því hins vegar yfir að mér þykir dýrmætum tíma Alþingis og hv. alþingismanna sóað í mál af þessu tagi þriðja árið í röð.