Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 15:45:41 (775)

2001-10-18 15:45:41# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta finnast mér nú alltaf bestu rökin, að þetta sé bara orrustan um frelsið í heiminum, að víglínan liggi þarna, að fá að boxa, ekki málfrelsi og skoðanafrelsi og slíkir hlutir, nei. En að fá að boxa, þar liggur sko víglínan milli þeirra sem vilja frelsið og hinna sem vilja það ekki.

Ég tel þetta ekki vera mikið hugsjónamál eða stórkostlegt frelsismál af þessum toga. Við setjum okkur alls konar reglur í þessu samfélagi vegna þess að það er í þágu almannaheilla. Við höfum komist að því að siðað samfélag manna byggir á ákveðinni reglusetningu. Það er ekki hægt öðruvísi. Annars værum við bara enn þá í frumskóginum. Þetta eru ekkert öðruvísi reglur en aðrar slíkar. Við skulum ekki rífast um það, hv. þingmenn, hvort rétt geti verið að hafa reglur af þessum toga eða ekki. Við skulum ræða um hvort þær séu skynsamlegar. Við erum vonandi orðin það þroskuð að við viðurkennum að til þess höfum við Alþingi og til þess höfum við stjórnvöld og margs konar skipulag í okkar samfélagi og ýmiss konar leikreglur, að það er nauðsynlegt. En það á auðvitað að ræða það á hverjum tíma hvort þessar reglur séu skynsamlegar og hvort hvers kyns takmarkanir, sem menn geta auðvitað sagt að þetta sé, séu nauðsynlegar og réttlætanlegar vegna þess að þær varðveiti frelsi annarra og tryggi almannaheill. Ég get ekki tekið það upp eftir hv. þm. að þetta sé mál af þeim toga sem hægt sé að selja mönnum út á svona hluti.

Svo kom hv. þm. með þetta að menn gætu meiðst í fleiri íþróttum og m.a. að sá sem hér stendur hefði orðið fyrir því að slíta hásin í knattspyrnu inni í Valsheimili. Það er alveg hárrétt. En það vildi nú einmitt svo til að ég stóð aleinn á gólfinu og var að snúa mér á hægri fætinum með boltann á vinstri löppinni og það kom enginn við mig. Þetta var einmitt þannig óhapp sem getur alltaf orðið og á í sjálfu sér ekkert skylt við eina tegund íþrótta frekar en aðra í þessu samhengi. Ég hefði alveg eins getað verið úti að skokka. Þetta eru því engin rök, hv. þm. Það er allt öðuvísi ef menn eru að berja hver annan viljandi í höfuðið. Það er allt annað mál.