Eftirlit Alþingis með fyrirmælum framkvæmdarvaldshafa

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 15:59:14 (777)

2001-10-18 15:59:14# 127. lþ. 15.11 fundur 133. mál: #A eftirlit Alþingis með fyrirmælum framkvæmdarvaldshafa# þál., BH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Hér mælti hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson fyrir mjög mikilvægu máli sem, eins og hann rakti í ræðu sinni, snertir í raun grundvöll lýðræðisins og þann grundvöll sem stjórnskipan okkar byggir á, þrískiptingu ríkisvaldsins eins og hún er nánar tiltekin í stjórnarskrá okkar og stjórnskipunarrétti.

Eins og menn vita er gert ráð fyrir að Alþingi fari með löggjafarvaldið ásamt forseta Íslands, en þó er það svo að vald Alþingis er í raun ekki í samræmi við það hlutverk sem þeirri stofnun er ætlað í stjórnarskrá okkar. Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að við gætum vel að og hugum vel að því hvert við erum að stefna í þessum efnum.

[16:00]

Áður hefur farið fram í þessum þingsal heilmikil umræða um þessar áherslur, hvernig þær eru að breytast í stjórnskipaninni og hvernig ofuráhersla er að verða á vægi framkvæmdarvaldsins, á meðan vægi Alþingis og löggjafarvaldsins er að minnka. Því hefur jafnvel verið haldið fram að Alþingi sé að verða nokkurs konar stimpilstofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Við sem hér sitjum, herra forseti, berum mikla ábyrgð í þessum efnum og eigum að standa vörð um að Alþingi sinni því hlutverki sem því er ætlað í stjórnarskrá lýðveldisins.

Hv. þm. leggur til að Alþingi fylgist með þeim fyrirmælum sem koma frá framkvæmdarvaldshafanum, að Alþingi hafi eftirlit með því og hafi yfirlit yfir þau fyrirmæli sem framkvæmdarvaldshafinn er að gefa. Það hefur verið að aukast mjög í seinni tíð að reglugerðarheimildir séu opnar, mun opnari en áður og það getur haft í för með sér ákveðna réttaróvissu. Reglugerðir eru háðari breytingum en lögin og oft á tíðum er réttarstaða manna ekki ljós, hvað þá þegar framsal löggjafarvals er eins mikið og raunin hefur verið.

Ég held að vægi framkvæmdarvaldsins og þetta mikla reglugerðaveldi sem við búum við sé mun meira hér en t.d. á Norðurlöndunum. Þar hefur þingið ekki framselt í sama mæli vald sitt eins og Alþingi því að þar er áherslan einfaldlega mun meiri á löggjafarvaldið en hér. Fyrir því eru gefnar margar skýringar, m.a. hefur verið nefnd sú skýring að hefð sé fyrir því á Norðurlöndunum að þar starfi minnihlutastjórnir sem krefjast miklu meira samráðs við aðra í þinginu. En hér á landi er ákveðin meirihlutahefð. Það er hefð fyrir því að sá sem valdið hefur ráði hverju sinni. Þannig getur margt valdið þessari þróun sem átt hefur sér stað.

Ég fagna því að hv. þm. skuli leggja fram þessa tillögu. Ég held að hún sé af hinu góða og geti kannski snúið við þeirri þróun sem hefur átt sér stað og er alls ekki nægilega góð. Ég held að ef ekki verði gætt að stöðu hins háa Alþingis, að vegsemd og virðingu þessarar stofnunar og löggjafarvaldinu, eins og það er skilgreint í stjórnarskrá og í stjórnskipunarréttinum, þá sé kannski ekki nema von að farið hafi eins og raun ber vitni.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra og fagna tillögu hv. þm.