Milliliðalaust lýðræði

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 16:39:59 (782)

2001-10-18 16:39:59# 127. lþ. 15.13 fundur 144. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., EMS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[16:39]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er ástæða til þess að þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir yfirgripsmikla framsöguræðu með þessari ágætu þáltill. sem hér er á dagskrá.

Tillagan sem sýnir mikla framtíðarsýn er afar tímabær vegna þess að hún tengir afar vel saman þróun tækninnar og þróun lýðræðisins. Það er mjög mikilvægt að Alþingi setji niður sérstaka nefnd til þess að fara yfir alla þá möguleika sem netið skapar okkur, bæði til þess að þróa lýðræðið og eins til þess að gera ýmsar tilraunir með breytingar á kosningafyrirkomulagi.

Þessi tillaga gerir ráð fyrir því að nefnd fari yfir þessi mál og ég held að það sé brýnt að hún taki til starfa sem allra fyrst vegna þess að á næsta vori fara fram sveitarstjórnarkosningar og mikilvægt er að þar verði stigin fyrstu skref í þeirri tilraun að nota netið við kosningar. Það hefur komið fram hjá áhugafólki um þetta mál að breyta þurfi lögum á Alþingi til þess að slík tilraun geti farið fram. Það er afar mikilvægt fyrir nefnd sem þessa að geta nýtt sér þær kosningar til þess að gera ákveðnar tilraunir á þessu sviði þannig að setja megi reglur sem staðið geta nokkuð inn í framtíðina.

Einnig er mikilvægt, eins og kemur fram bæði í tillögunni sjálfri og greinargerðinni, að gætt sé öflugrar persónuverndar vegna þess að það er eitt af þeim málum sem menn hljóta að hugsa til þegar þeir nota netið í þessu skyni.

Við þekkjum ákveðnar tilraunir sem gerðar hafa verið nú um nokkurra ára skeið af ýmsum fjölmiðlum, m.a. á netinu, þ.e. skoðanakannanir svokallaðar sem auðvitað fullnægja ekki þeim skilyrðum sem við setjum venjulegum skoðanakönnunum. Þar er persónuvernd ekki tryggð nákvæmlega eins og við vildum sjá það, þ.e. með reglum, og held ég að við flest tökum misjafnlega mikið mark á slíkum könnunum. Því er mikilvægt að setja þetta í ákveðinn farveg þannig að þessi tækni nýtist okkur við slíkar kannanir.

Einnig er ljóst að þessi tækni skapar alveg nýja möguleika til að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að það er auðvitað allt annað fyrirkomulag að geta spurt þjóðina á slíkan hátt en að setja upp það mikla bákn sem þjóðaratkvæðagreiðsla raunverulega er og það gæti orðið til þess að þróa áfram slíka meðferð lýðræðisins, að leyfa þjóðinni að svara ákveðnum grundvallarspurningum vegna þess að að sjálfsögðu hefur netið líka skapað alveg nýja möguleika til þess að koma upplýsingum til þjóðarinnar.

Möguleikarnir eru þess vegna ótæmandi og því er mikilvægt að þetta sé sett í farveg sem vísar okkur veginn inn í framtíðina.

Þeir möguleikar eru einnig athyglisverðir sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefndi í framsöguræðu sinni, sem netið og þetta fyrirkomulag um kosningar skapar stjórnmálaflokkum og starfi þeirra. Flestir sem hafa áhuga á lýðræðinu fylgjast væntanlega vel með þverrandi starfi flestra stjórnmálaflokka, ekki bara hér á landi heldur víða um heim. Því er mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir nýti sér, eins og þeir hafa gert í sívaxandi mæli, þessa nýju tækni og þess vegna er eðlilegt að við þróum fyrirkomulagið áfram á þessu sviði þannig að stjórnmálaflokkarnir séu í takt við að mæta þessu. Við verðum þess vegna að tryggja að allar leikregur séu sem best úr garði gerðar. Ég er sannfærður um að sú leið sem hér er lögð til muni leiða okkur í þá vegferð sem mun tryggja okkur það að niðurstaðan verði sem allra best.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langa ræðu um þetta. Ég trúi því og treysti að nefndin sem fær málið til umfjöllunar muni skoða þetta gaumgæfilega og vonandi mæla með samþykkt tillögunnar.

Þó tel ég rétt að vekja athygli á einu atriði að lokum, þ.e. orða sendiherra okkar í Washington, Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem vitnað er til í greinargerð með tillögunni, þar sem hann ræðir einmitt um það að aðstæður okkar á Íslandi eru slíkar að það er mjög verðugt verkefni að við skoðum það að við séum ákveðin tilraunastofa í þessum efnum. Við búum við þær aðstæður að við eigum að geta gengið lengra en ýmsar aðrar þjóðir í tilraunaskyni og þar með leitt þjóðir heimsins áfram í þessari þróun.