Milliliðalaust lýðræði

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 16:44:49 (783)

2001-10-18 16:44:49# 127. lþ. 15.13 fundur 144. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[16:44]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Það er aðall samfélaga sem kenna sig við lýðræði að stuðla að dínamískri, lifandi og stöðugri þróun þess, lifandi umræðu og dínamískri og stöðugri þróun lýðræðisins.

Það er rétt sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson benti á í framsöguræðu sinni að að mörgu leyti hefur umræðan um lýðræðið staðnað á undanförnum árum og áratugum. Því er tímabært svo ekki sé meira sagt að leggja fram þessa framsæknu og góðu tillögu.

Að færa valdið til fólksins er ekki endilega einfalt mál og það skiptir mjög miklu að þar sé rétt að verki staðið. Tæknin hefur fært okkur upp í hendurnar tæki sem við höfðum ekki áður, tæki sem við getum nýtt til þess að dreifa valdi betur í samfélaginu og tryggja lýðræðislegri vinnubrögð.

Það er mjög mikilvægt í þessari umræðu að grundvöllur þess að koma á milliliðalausu lýðræði, eins og lagt er til í till. til þál., sé fyrir hendi. Sá grundvöllur er ekki fyrir hendi nema tryggð séu jöfn tækifæri allra þegnanna, mikil menntun þeirra og hæfi þeirra til að takast á við þær spurningar sem við þurfum að takast á við í nútímasamfélagi. Þess vegna byggir tillaga sem þessi að sjálfsögðu á hugsjónum jafnaðarmanna um jöfn tækifæri, jöfn tækifæri til menntunar ekki síst og rímar algjörlega saman við þær skoðanir okkar.

Ég ætla ekki að leggja mörg orð í belg. Ég fagna þessari tillögu sérstaklega og vænti þess að hún muni vísa okkur veginn fram á við í vönduðum tilraunum til þess að koma á milliliðalausu lýðræði hér á landi. Eins og hefur komið fram áður í þessari umræðu getur Ísland orðið tilraunastofa í þeim efnum. Til þess höfum við fulla burði. Við þurfum hins vegar að vanda okkur, huga vel að hverju skrefi sem tekið er og gæta þess mjög vel að allir þegnar landsins séu þátttakendur í slíkri lýðræðisþróun.