Svæðisskipulag fyrir landið allt

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 17:34:12 (794)

2001-10-18 17:34:12# 127. lþ. 15.15 fundur 157. mál: #A svæðisskipulag fyrir landið allt# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[17:34]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að þakka hv. þm. Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli á hinu háa Alþingi með till. til þál. um gerð svæðisskipulags fyrir landið allt.

Eins og fram kom í ræðu hv. framsögumanns skiptir mjög miklu máli að ljúka þessu verkefni fljótt og vel og, eins og hv. þm. Jón Bjarnason benti á, að þessi svæðisskipulög verði unnin meira og minna á sama tíma á landinu.

Við höfum séð það á undanförnum dögum og vikum þegar svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins hefur verið kynnt --- það er nú til kynningar, m.a. er fundur um það í Hafnarfirði í kvöld --- að gríðarlega miklu máli skiptir að hinn almenni borgari eigi kost á því að segja skoðun sína á tillögum til svæðisskipulags og leggja eitthvað til málanna þar um þannig að allir, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur allir borgarar landsins, hafi rétt til þess að koma skoðunum sínum á framfæri um það hvernig skuli skipulagt til langrar framtíðar. Ég hygg að þetta sé að takast alveg ágætlega með kynningu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og það er von mín að svo verði um önnur slík skipulög.

Eins og hv. flutningsmaður Ólöf Guðný Valdimarsdóttir benti á er mikils til vinnandi að stuðla að skynsamlegri byggðaþróun sem leiðir til markvissra aðgerða í byggðamálum hér á landi. Einmitt með þessu tæki getum við stutt þá þróun þannig að hún verði skynsamleg og markviss og ekki síst í takt við vilja fólksins. Aðeins þannig náum við raunhæfum árangri í landnotkun og þróun byggða hér á landi.

Í tillögunni er m.a. lagt til að kannað verði hvernig komið verði til móts við sveitarfélögin til að standa straum af kostnaði við svæðisskipulagsgerð umfram það sem kveðið er á um í skipulagslögum. Þetta er algjörlega nauðsynlegt því að við vitum að sveitarfélögin standa mjög misjafnlega fjárhagslega og eru misjafnlega burðug til þess að takast á hendur þetta veigamikla og mikilvæga verkefni. Ég lofa því fyrir hönd flokks míns að fulltrúar Samfylkingarinnar í hv. umhvn. munu taka þetta mál til gagngerrar skoðunar, skoða það vendilega, þannig að við reynum að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig tryggja megi að þessi svæðisskipulög verði gerð hratt og örugglega og vandlega.