Stofnun þjóðgarðs um Heklu og nágrenni

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 18:15:18 (806)

2001-10-18 18:15:18# 127. lþ. 15.16 fundur 158. mál: #A stofnun þjóðgarðs um Heklu og nágrenni# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[18:15]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Það er ástæða til þess að fagna þessari till. til þál. um stofnun þjóðgarðs um Heklu og nágrenni sem lögð hefur verið fram af hv. þm. Ármanni Höskuldssyni ásamt nokkrum þingmönnum Suðurlandskjördæmis. Hún sýnir okkur svo ekki verður um villst að nýting og vernd eru tvær hliðar á sama peningi og okkur ber að líta þannig á landið að það gefi okkur bæði möguleika til verndar og til nýtingar og að það tvennt eigi saman. Að því leyti fagna ég þessari tillögu frá hv. þm. Framsfl. alveg sérstaklega.

Ég heiti því að þessi tillaga verður grandskoðuð í hv. umhvn. eins og aðrar þær tillögur sem hér hafa verið ræddar fyrr í dag. Þar mun hún fá mjög faglega umfjöllun. Mig langar samt að greina frá því að sú sem hér stendur er þeirrar skoðunar að e.t.v. sé komið að þeirri stundu, í umræðu um þjóðgarða, friðlönd, fólkvanga og annað sem stuðlar að náttúruvernd hér á landi, að við tökum okkur tíma til að huga að heildstæðri stefnumótun fram í tímann, og þá meina ég langt fram í tímann eins og aldarfjórðung. Sú stefnumótun er í raun alveg jafnmikilvæg, stefnumótunin til verndunar, eins og stefnumótunin til nýtingar sem nú er innan rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Ég vildi nota þetta tækifæri, herra forseti, til að koma hugleiðingum mínum á framfæri en ítreka að þessi tillaga er allrar athygli verð og mun fá ítarlega skoðun í hv. umhvn.