Átak til að lengja ferðaþjónustutímann

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 18:50:50 (811)

2001-10-18 18:50:50# 127. lþ. 15.9 fundur 139. mál: #A átak til að lengja ferðaþjónustutímann# þál., JHall
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[18:50]

Jónas Hallgrímsson:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir stuðningi mínum við það málefni sem hér er til umfjöllunar. Hér er vissulega hreyft mjög þörfu máli. Það kom fram, svo að ég byrji á einhverju, í meginmáli 1. flm., hv. þm. Karls V. Matthíassonar, að ferðaþjónustan hafi eflst og styrkst undanfarin ár. Það er alveg hárrétt að vissu marki og á vissum landsvæðum. Við erum einmitt stödd á því landsvæði þar sem þessi svonefnda ferðaþjónusta hefur eflst mest. Ég er ekki að mæla því í mót nema síður sé en hefði gjarnan viljað sjá hana eflast úti á landi ekkert síður.

Okkur sem komum utan af landsbyggðinni og höfum svolítið með ferðaþjónustuna að gera finnst stundum að ekki sé litið lengra en kannski til Bláa lónsins, Þingvalla, Geysis og Gullfoss og að þetta sé hringurinn. Það sem er kannski verra er að ferðir erlendra ferðamanna hafa styst. Það er sannanlega verri nýting á áætlunarbílunum og það á ekki síður við um þá sem koma sjóleiðina til landsins. Það er alveg ljóst. Ferðirnar eru að styttast og fleiri þurfa að koma til þess að gefa af sér þær tekjur sem við þurfum.

Ég minnist þess að á þeim tíma sem við vorum að baksa í því að styrkja og styðja beina innkomu til landsins að tveir staðir aðrir en Keflavíkurflugvöllur nutu þess að fá farþega beint inn til landsins. Annar var Akureyri um nokkurra ára skeið. Hinn var Húsavík. Svissnesk ferðaskrifstofa stóð að þessu beina leiguflugi til landsins og þá sáum við líka, landsbyggðarbúarnir, fólkið koma beint út á land nákvæmlega eins og gerist austur á landi í dag og ferðaþjónustan sem menn hafa verið að byggja upp naut þess í ríkum mæli.

Ég er ekki að vanþakka eða deila á það sem hér var sagt gott um stærsta og öflugasta ferðaþjónustufyrirtæki okkar Flugleiðir. Þeir hafa vissulega lagt mikið á sig í að markaðssetja og auglýsa landið okkar. Þeir hafa líka lagt til fjármuni og vinnu úti á landi með kaupum og rekstri á hótelum þannig að þeirra hlutur er vissulega mikill. En það breytir ekki því að við fáum allt of lítið af því sem kakan ætti að gefa okkur landsbyggðarbúunum og það er líka meginefni þessarar tillögu og það sjónarmið styð ég.

Hvað er þá til ráða? Það er að markaðssetja landið allt saman. Ef við skoðum þá bæklinga sem gefnir hafa verið út, bæði í máli og myndum undanfarin ár, kemur nefnilega í ljós að sáralítill hluti af því kynningarefni sem gefið hefur verið út er annars staðar frá en af afmörkuðu landsvæði. Þetta þykir okkur miður sem búum úti á landi og viljum gjarnan njóta þess sem til landsins kemur af ferðafólki. En þetta er náttúrlega til þess að laga og leiðrétta og við verðum að treysta því að það verði gert.

Sá myrki skuggi sem dró upp á himininn 11. september sl. hefur nú þegar sett mörk sín á ferðaþjónustuna í þessu landi og afkomu stærstu ferðaþjónustufyrirtækjanna og svo verður eflaust enn um hríð. Því er spurningin: Hvað er til ráða? Hvað getum við gert til þess að snúa þessari slæmu þróun við? Við getum einmitt gert það sem menn hafa verið að lýsa áður í ágætum ræðum sínum, bent á þá kosti sem þetta land hefur, þann frið og það öryggi sem við búum við. Ég efast um að nú séu möguleikar hjá ferðaþjónustufyrirtækjunum að fara í öfluga markaðsetningu. En nú er lag. Nú er nefnilega lag að benda á okkar sérstæðu kosti og það verður að gerast með peningum sem koma úr almannasjóðum. Það er mín skoðun. Ég held að enginn einstakur aðili geti farið í það í dag. En það væri vissulega þess virði að skoða í alvöru hvort þetta væri ekki það sem brýnast væri að gera í stöðunni núna og gæfi sem allra mest af sér innan sem skemmstra tímamarka.

Ég hef alltaf mikla ánægju af því að hlusta á hv. þm. Össur Skarphéðinsson þegar hann fer hér með himinskautum og það gerði hann vissulega þegar hann fór að blanda saman hækkun tryggingagjalds, sem ekki er orðin, og flötum skatti á atvinnureksturinn í landinu. Sannleikurinn er sá að til koma aðrar ráðstafanir --- ég má til með að koma aðeins inn á þetta --- sem felast í áformum okkar ágætu hæstv. ríkisstjórnar um fyrirhugaðar skattalagabreytingar þannig að með því að fyrirtækin fari að þéna peninga þá séu þau ekki að borga 30% í tekjuskatt heldur fari hann niður í 18%. Ætli það vegi ekki líka eitthvað á móti þessu hækkaða tryggingagjaldi, ef af verður, svo að það komist bara til skila.

Ég endurtek stuðning minn við þetta málefni og tel að það hafi mjög mikla þýðingu að það nái fram að ganga.