Átak til að lengja ferðaþjónustutímann

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 19:00:08 (813)

2001-10-18 19:00:08# 127. lþ. 15.9 fundur 139. mál: #A átak til að lengja ferðaþjónustutímann# þál., JHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[19:00]

Jónas Hallgrímsson (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi það að ferðaþjónustan þyrfti að styrkjast og eflast til að hafa tekjur til að greiða skatta. Það var megininntakið í orðum mínum.

Ég nefndi það líka að við mættum ekki vanmeta það sem Flugleiðir hafa gert. Það er vissulega mikið. Þingmenn hafa á hverju einasta þingi sem ég hef komið hér að málum verið með tillögur um hækkun á fjárlögum til Ferðamálaráðs þar sem það nyti ekki þeirra tekna sem það ætti lögformlega að hafa. Það hefur ekki náð fram að ganga.

Ég sagði áðan að við stæðum í þeim sporum í dag að það þyrfti fé úr almannasjóðum til að gera átak. Ferðamálaráð hefur ekki þá fjármuni hvernig svo sem menn líta á það. Hvort það er miðstýrt eða ekki miðstýrt skal ég ekkert um segja. Hins vegar vantar þarna sárlega peninga til landkynningar. Landkynning á að vera þannig að það á að markaðssetja landið allt, ekki aðeins þann litla hluta sem helst hefur notið þess fram að þessu.