Átak til að lengja ferðaþjónustutímann

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 19:05:16 (817)

2001-10-18 19:05:16# 127. lþ. 15.9 fundur 139. mál: #A átak til að lengja ferðaþjónustutímann# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[19:05]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki vera langorður. Sú tillaga sem hér liggur fyrir er ákaflega þörf og umræðan um ferðaþjónustuna í landinu yfir höfuð. Það sem stendur hins vegar upp úr er að mínu mati, eins og komið hefur fram hjá fleiri hv. þm., að vandamálið er fyrst og fremst peningaleysi. Ég kannast við það frá því að hafa unnið að ferðamálum fyrir mitt sveitarfélag norður á Akureyri þar sem ég var stjórnarformaður Ferðamálaskrifstofu Eyjafjarðar í fjögur ár og þekki þennan málaflokk vel.

Það eru þessir lykilaðilar, Ferðamálaráð, Byggðastofnun og Samtök ferðaþjónustunnar sem þurfa aukinn stuðning. Ég held að við gætum margt lært af Dönum. Hér er uppi sama vandamálið og Danir stóðu frammi fyrir á 8. áratugnum. Þá gerðu þeir sér grein fyrir því að þeir hefðu bara auglýst Kaupmannahöfn og að allir héldu að Danmörk væri Kaupmannahöfn og ekkert annað. Þeir hrintu af stað markvissu átaki um að kynna alla Danmörku og það gafst ákaflega vel. Það þarf svo sem ekki að tíunda frekar vandamál landsbyggðarinnar. Hlutirnir hafa náttúrlega bara æxlast svona. Við erum með Flugleiðir, þetta stóra fyrirtæki okkar. Það auglýsir sjálft þetta svæði á suðvesturhorninu og Gullfoss og Geysis hringinn. Við höfum notað peninga til kynningar, meira að segja í gegnum Flugleiðir. Þar er starfsfólk okkar og því er greitt með opinberu fé. Það hefur verið sett inn á Flugleiðaskrifstofurnar. Við erum öll mannleg og það gerist bara þannig að þetta svæði fær miklu meiri athygli.

Við höfum líka staðið frammi fyrir því undanfarin ár að ferðaskrifstofurnar, sem að langmestu leyti eru staðsettar hér, selja fremur þetta svæði. Þar af leiðandi gerist nákvæmlega það sama og Danir stóðu frammi fyrir á sínum tíma, að landsbyggðin, með alla þá möguleika sem þar eru, verður afgangsstærð. Út á landsbyggðina er fólkinu ekki beint fyrr en orðið er fullt hér. Þetta er bara lögmál sem við verðum að gera okkur grein fyrir og hver er þá lausnin? Ég held að menn séu um allt land að vinna mjög gott starf og hafi alls konar góðar hugmyndir um afþreyingu. Ég tel hins vegar að lausnin felist í því að það þarf, til mótvægis við þessa stöðu, meiri fjármuni til landshlutabundinna miðstöðva ferðamála til að standa jafnfætis þessu svæði í kynningu.

Það gefur augaleið að á þá staði sem ekki eru kynntir, sem menn hafa ekki barið augum, þ.e. markaðsaðilarnir og ferðaskrifstofurnar, kemur ekki fólk. Við þekkjum þetta. Við fyrir norðan eyddum háum fjárhæðum t.d. í að fá fleiri skemmtiferðaskip norður. Bara með því að nota peninga í það mál, kynna stöðu okkar og landsvæði á markaðstorgi skemmtiferðaskipanna í Flórída þá var eins og við manninn mælt. Ferðamönnum fjölgaði um fleiri þúsund á örfáum árum. En þetta er gríðarlega dýrt og þessa peninga hefur ferðaþjónustan úti á landi ekki haft.

Ég fagna þessari umræðu. Hún er mjög þörf en í mínum huga þarf númer eitt, tvö og þrjú, aukið fjármagn í markaðssetninguna úti á landsbyggðinni. Við höfum mjög duglegt fólk sem vinnur í þessum málaflokki alls staðar. Við höfum nóg af góðum hugmyndum. Þetta er fyrst og fremst spurning um fjármagn. Ef við leggjum það ekki til þá erum við að vinna okkur stórtjón til lengri tíma litið. Það er óheppilegt. Danir komust að þeirri niðurstöðu. Það er óheppilegt að minnka landið svo að það verði bara kraginn í kringum höfuðborgarsvæðið, Reykjanesið, og vart fari spurnir af öðru en því sem er á því þrönga svæði. Þetta hafa allir reynt vegna þess að þær reynast best auglýsingarnar sem kynntar eru maður á mann, þ.e. fjölskyldumyndirnar sem veturinn eftir sumarfríið eru sýndar í boðum. Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir okkur að slík kynning fari sem víðast.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, virðulegi forseti, en ég hef alltaf verið stuðningsmaður þess að sett verði aukið fjármagn í þessa starfsemi úti á landi. Ég held að landsbyggðin standi mjög höllum fæti miðað við það sem gert er fyrir þennan málaflokk á suðvesturhorninu. Orsakir þessa liggja auðvitað í augum uppi, t.d. sú staðreynd að Flugleiðir hafa starfsemi sína hér o.s.frv. en við höfum líka sett peninga í kynningu hér umfram það sem gert hefur verið annars staðar. Við höfum verið með upplýsingamiðstöð ferðamála hér sem er greidd af opinberu fé. Hins vegar hefur ekki fyrr en á allra síðustu árum, síðustu tveimur árum, verið unnið þannig hvað varðar landsbyggðina. Sveitarfélögin hafa sjálf þurft að standa í þessu. Ég þekki þann barning vel. Slíkt hefur kostað ærið fé fyrir minni sveitarfélögin og stór kaupstaður eins og Akureyri kveinkaði sér mjög undan þeim kostnaði og þá geta menn ímyndað sér hvernig það hefur verið annars staðar.

Auknir fjármunir í málaflokkinn er okkar stefna og við munum gefa því allt það afl sem við höfum, að menn opni augun fyrir því að setja meira fé í þetta. Við erum ekki að tala um neinar stórar fúlgur, einhverja tugi milljóna. Þessi atvinnugrein sem núna er orðin sú næststærsta í gjaldeyrisöfluninni á það sannarlega skilið að fá aukið vægi. Ætli þetta sé ekki sú af okkar stærstu atvinnugreinum sem fær minnst frá ríkinu til stuðnings? Ég gæti ímyndað mér það.

Virðulegi forseti. Þetta er gott mál. Við munum styðja það og eflast öll. Ég heyri að stjórnarliðar í Framsfl. eru inni á því líka en við sjáum hvað setur.