2001-10-30 13:41:31# 127. lþ. 16.91 fundur 81#B skerðing á starfsemi tæknifrjóvgunardeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss# (aths. um störf þingsins), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Ásta Möller:

Herra forseti. Málefni tæknifrjóvgunardeildar eru í brennidepli þessa dagana. Ég tek undir að deildin sýnir mjög góðan árangur. Um það bil helmingur þeirra meðferða sem hafnar eru heppnast hér, til samanburðar við fjórðung annars staðar í Evrópu. Ég vil benda á að þessi starfsemi krefst ekki sjúkrahússinnlagnar og því fagna ég sérstaklega að hæstv. heilbrrh. hefur tekið fram að möguleikar séu á að gera þjónustusamninga við þá fagaðila sem sinna þessari þjónustu.

Aðeins hluti þeirra sem fá þessa þjónustu fá niðurgreiðslu á henni. Það er einungis í fyrstu til fjórðu meðferð, við fyrsta barn, sem fólk fær niðurgreiðslu á þessari þjónustu. Eftir það greiðir það meðferðina nánast að fullu. Fólk greiðir 80% við annað barn en ríkið 20%. Við þriðja barn greiðir ríkið ekki neitt. Það er mjög brýnt að nota þær umræður sem hafa skapast núna til þess að taka ákvörðun um hvort þessi nauðsynlega þjónusta, sem er ekki bráðaþjónusta, eigi heima á sjúkrahúsum. Þetta má útfæra á ýmsan máta, m.a. með því að gera samkomulag við fagaðila sem sjá um þjónustuna í dag --- leigja þeim starfsemina eða selja, a.m.k. er mjög mikilvægt að þessi starfsemi sé til staðar og fái að þróast eðlilega.