2001-10-30 13:43:27# 127. lþ. 16.91 fundur 81#B skerðing á starfsemi tæknifrjóvgunardeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[13:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fagna orðum hæstv. heilbrrh. þar sem hann lýsti því yfir að starfseminni á glasafrjóvgunardeild Landspítala -- háskólasjúkrahúss yrði haldið áfram. Vegna hugsanlegra áforma um að gera þjónustusamning vil ég ítreka að þótt aðgerðir sem þessar verði gerðar úti í bæ má það aldrei verða til þess að mismuna fólki eftir efnahag, þ.e. miða aðgang að þjónustunni við efnahag.

Það er alveg rétt að fólk greiðir stóran hluta af þessari þjónustu sjálft inni á spítalanum en ég minni á að á Landspítalanum er til orðin mjög dýrmæt reynsla og ótrúlega góður árangur, mun betri en annars staðar, 45% árangur á móti 26% árangri annars staðar í Evrópu. Slík þjónusta og slíkar aðgerðir þurfa auðvitað að vera til staðar og gerðar á háskólasjúkrahúsi þannig að háskólasjúkrahúsið standi undir nafni. Þar verður að vera fjölbreytt þjónusta.

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa gripið fljótt til aðgerða því að það er ófært að fólk sem hefur beðið eftir þjónustu þurfi að líða fyrir það og bíða vegna þess að það vantar 5 millj. kr. upp á lyfjakostnaðinn.