Rekstur Ríkisútvarpsins

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 14:15:26 (836)

2001-10-30 14:15:26# 127. lþ. 16.9 fundur 7. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég er sammála megininntaki þeirrar þáltill. sem hér hefur verið talað fyrir og gengur út á að Alþingi álykti að kosin verði nefnd sem skipuð verði fulltrúum allra þingflokka til að semja frv. um breyttan rekstur Ríkisútvarpsins. Gert er ráð fyrir því að þessi nefnd ljúki störfum innan sex mánaða frá samþykkt tillögunnar. Þessari nefnd er síðan sniðinn ákveðinn rammi, mótaður ákveðinn stefnurammi í nokkrum liðum, og ég tek undir með starfsmannasamtökum Ríkisútvarpsins þegar þau lýsa stuðningi við megininntak þáltill. sem gengur út á það að styrkja Ríkisútvarpið og kalla að fulltrúa úr mismunandi pólitískum áttum til að ráða ráðum sínum um framtíð þess. Einnig eru mörg atriði í stefnurammanum sem nefndin á að starfa samkvæmt sem ég er sammála. Þar er þó sitthvað sem ég vil gera athugasemdir við. Í d-lið segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisútvarpið verði fjármagnað að fullu á fjárlögum ár hvert, t.d. innan rammaáætlunar eða þjónustusamnings til þriggja til fimm ára í senn. Útvarpið hætti að flytja viðskiptaauglýsingar í samkeppni við aðra fjölmiðla en flytji áfram tilkynningar frá opinberum aðilum, félagasamtökum og öðrum sambærilegum aðilum.``

Ég hef ákveðnar efasemdir um að það sé raunsætt að svipta Ríkisútvarpið auglýsingatekjum sínum. Þær eru snar þáttur í fjármögnun Ríkisútvarpsins. Hitt finnst mér einnig skipta mjög miklu máli að svo sé búið um hnúta varðandi fjármögnun Ríkisútvarpsins að það sé eins óháð framkvæmdarvaldinu og kostur er. Sú leið sem við höfum farið, og er hin sama og Norðurlandaþjóðirnar, BBC og fleiri útvarpsstöðvar sem reknar eru á vegum hins opinbera hafa kosið sér, er að afla tekna með afnotagjöldum. Mér finnst vel koma til greina að finna nýjar leiðir þar, að tengja afnotagjöldin fasteign eða eitthvað af því tagi, en ég hef ákveðnar efasemdir um að færa fjármögnunina inn í ríkissjóð á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir og held að Ríkisútvarpið yrði of háð framkvæmdarvaldinu með þeim hætti.

Ég minnist umræðna á Alþingi --- fyrr á þessu ári mun það hafa verið --- þegar um þetta var rætt í þingsölum. Þá spurði ég ýmsa stjórnarsinna, ýmsa fulltrúa Sjálfstfl. sem tóku þátt í umræðunni, hvort þeir sæju fram á að Ríkisútvarpinu yrðu tryggðar jafnmiklar tekjur ef stofnunin færi inn á fjárlög. Menn treystu sér ekki til að fullyrða að svo yrði og ég hef ákveðnar efasemdir um þetta. Mér finnst að svara þurfi tveimur spurningum: Viljum við hafa ríkisútvarp sem er kostað af hinu opinbera, af almenningi? Ef svarið er játandi, þá er komið að því að svara annarri spurningu: Á hvern hátt ætlum við að fjármagna það? Þá stöndum við frammi fyrir þessum tveimur valkostum; að gera það í gegnum fjárlög eða með afnotagjöldum eða einhverjum áþekkum gjöldum. Ég er hlynntari því.

Hinn liðurinn sem ég vildi gera athugasemd við er j-liðurinn í greinargerðinni. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Skipan og hlutverk útvarpsráðs verði með allt öðrum hætti en nú er. Yfir stofnunina verði sett allfjölmennt útvarpsráð, eins konar akademía, e.t.v. 15 manna sem valdir væru af samtökum og stofnunum í samfélaginu, úr menningar- og listaheiminum, af fræðslustofnunum, úr vísinda- og rannsóknargeiranum, af landsbyggðinni, frá almannasamtökum launþega og e.t.v. fleiri aðilum. Seta í útvarpsráði væri mikilsverð viðurkenningar- og virðingarstaða sem eingöngu mundi veljast til hið hæfasta fólk með víða sýn yfir samfélagið. Ráðið hefði vel skilgreint verksvið og ákvæði megindrætti í dagskrárstefnu stofnunarinnar og verkaskiptingu milli Rásar 1, Rásar 2 og sjónvarpsins.`` Síðan er vikið að ráðningu útvarpsstjóra í næsta lið.

Nú er þetta náttúrlega gert til þess að höggva á tengslin á milli stjórnmálaflokkanna og stofnunarinnar og í sjálfu sér finnst mér sú hugsun sem hér býr að baki vera mjög virðingarverð. En ég spyr hvort ekki væri hreinast, eftir sem áður, að það væri Alþingi sem tilnefndi fulltrúa. Við vitum að ítök stjórnmálaflokkanna liggja víða. Það er t.d. vikið að landsbyggðinni þarna, að hún skuli fá fulltrúa í útvarpsráði. Hvernig yrði það tryggt? Í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga hugsanlega. Þar gætu orðið fyrir valinu jafnágætir menn og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson eða Alfreð Þorsteinsson. Þeir munu ekki vera með öllu ópólitískir menn. Ég held sem sagt að það væri að mörgu leyti hreinlegra að Alþingi skipaði í útvarpsráð og síðan mætti hugsa sér að krafist yrði aukins meiri hluta, 7 af 9 atkvæðum eða annað þess háttar, svo að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðu í útvarpsráði yrðu sín í milli að semja um ráðningu útvarpsstjóra og um aðrar grundvallarákvarðanir. Þetta mætti hugsa sér.

Ég sagði áðan að í k-lið greinargerðarinnar væri einmitt vikið að ráðningu útvarpsstjóra og þar er lögð áhersla á að starfsmenn komi að málum. Þetta finnst mér vera gott sjónarmið og styð það. Það mætti vissulega hugsa sér að starfsmenn hefðu eitthvað um það að segja þegar útvarpsstjóri yrði ráðinn til stofnunarinnar.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni, en þessi tillaga er lögð fram af góðum hug til Ríkisútvarpsins. Ég tek undir megininntak hennar, að skipuð verði þverpólitísk nefnd til þess að fara yfir stöðu Ríkisútvarpsins og reynt verði að ná sátt um framtíð þess. Ég geri hins vegar athugasemdir við einstaka þætti og hef vikið sérstaklega að tveimur þeirra.