Rekstur Ríkisútvarpsins

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 14:34:06 (840)

2001-10-30 14:34:06# 127. lþ. 16.9 fundur 7. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi eru auglýsingar hvorki góðar né slæmar. Auglýsingar geta verið góðar og þær geta verið slæmar. Auglýsingar geta verið okkur mikilvægar til að koma upplýsingum á framfæri um vöru og þjónustu, félagastarfsemi o.s.frv. Ég er því enginn andstæðingur auglýsinga nema síður sé.

Í öðru lagi er það alveg rétt að auglýsingatekjur eru mjög sveiflukenndar. Svo er einnig um tekjur ríkissjóðs, þær eru sveiflukenndar eins og við þekkjum, ekki síst í ljósi þess að ríkissjóður hefur verið að skila góðum afgangi, einmitt í ljósi þenslunnar. Þegar dregur úr henni þá dregur úr tekjum ríkissjóðs og ef við setjum Ríkisútvarpið á fjárlög mun það að sjálfsögðu verða háð þessum sveiflum.

Í þriðja lagi vil ég nefna að fyrir rúmum tíu árum var ég formaður nefndar sem gerði drög að nýju frv. um Ríkisútvarpið. Þessi nefnd kannaði mjög rækilega ýmsa kosti varðandi fjármögnun Ríkisútvarpsins. Við leituðum gagna frá Norðurlöndunum, BBC og víða að úr heiminum. Niðurstaðan varð sú að þrátt fyrir alla annmarka þá væri það svo mikils virði að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins sem allra best að menn voru tregir að hverfa frá afnotagjöldunum.

Mér finnst hins vegar vel koma til álita að finna aðra tekjustofna, að tengja afnotagjöldin t.d. fasteign í stað þess að binda það við viðtækin. En þetta eru mál sem þarf að skoða. Ég fagna því að þessi tillaga skuli komin fram um að kalla menn úr mismunandi pólitískum áttum til að setjast yfir þetta brýna mál.