Rekstur Ríkisútvarpsins

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 14:46:54 (844)

2001-10-30 14:46:54# 127. lþ. 16.9 fundur 7. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[14:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. hafi eitthvað misskilið mig. Ég er fylgjandi því að Ríkisútvarpið sé ríkisútvarp í opinberum rekstri og heyri undir Alþingi og að Alþingi skipi útvarpsráð. Ég gerði grein fyrir því sjónarmiði áðan. Ég var ekki að gera stjórnmálin tortryggileg á þann hátt sem mér virðist hv. þm. hafa skilið orð mín, nema síður sé.

Hins vegar gengur formbreyting í átt til hlutafélags út á það að færa stofnanir undan þessu valdi, undan ríkisvaldinu og undan Alþingi. Út á það gengur það. Þá koma aðrir aðilar að málum og þá eru það væntanlega fulltrúar fjármálalífsins sem kæmu til með að fjárfesta í þessari starfsemi til að hafa af henni arð. Ég á erfitt með að skilja að starfsemi sem ber sig illa og á í vök að verjast verði betur borgið í höndum aðila sem ætla að reyna að hafa eins mikinn arð út úr starfseminni og kostur er. Því auglýsi ég einfaldlega eftir því hverja kosti hv. þm. telur vera við það að gera Ríkisútvarpið að markaðsvöru eins og mér virðist hann vera að leggja til.