Rekstur Ríkisútvarpsins

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 14:51:02 (846)

2001-10-30 14:51:02# 127. lþ. 16.9 fundur 7. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., Flm. SvH
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hvernig skyldi á því standa að útvarpsstjóri telur sig tilneyddan að bregða á það ráð að skerða þjónustu útvarpsins? Þeir sem ráða ferðinni í þjóðfélaginu hljóta að geta svarað þessu sjálfir. Það er af því að ekki er á hann hlustað. Það er á það horft aðgerðarlaust að útvarpið er á gjaldþrotaleið. En það sýnir auðvitað víðsýni hv. 1. þm. Norðurl. e. að honum skuli aðeins vera það í huga hvernig þjónustan var skert til norðausturhornsins þar sem íbúarnir flýja umvörpum vegna þeirrar stefnu í sjávarútvegsmálum sem hann er einn aðalhöfundur að.

Ég þakka hv. 13. þm. Reykv. og hv. 7. þm. Reykv. fyrir þær góðu undirtektir sem þeir veittu tillögunni. Ég gerði mér aldrei vonir um að ekkert væri athugavert af þeirra hálfu við tillögugerðina. Ég hygg að greinargerðin svari í öllum aðalatriðum þeim athugasemdum sem fram komu en mér tókst ekki að flytja í fyrri ræðutíma mínum, en geri nú, til vonar og vara, með leyfi hæstv. forseta, þó að ég sé að lesa upp eigið hugverk. Þar segir svo, með þessu nauðsynlega leyfi:

,,Uppi eru hugmyndir um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi og þeim röksemdum beitt að stofnunin þurfi að geta brugðist skjótt við í samkeppni og verið fljót til ákvarðana. Hlutafélagsvæðing Ríkisútvarpsins er óþörf til að gefa stofnuninni slíkt svigrúm. Með lögum um stofnunina má gefa henni allt það umboð sem hún kann að þurfa á að halda til að vera jafnviðbragðsfljót til ákvarðana eins og hlutafélag getur verið. Breyting stofnunarinnar í hlutafélag gefur hins vegar til kynna að til greina kæmi að selja það hlutafélag.`` --- Og til þess eru raunar refarnir skornir. --- ,,Minnsta vísbending í þá átt er að mati flutningsmanns þessarar þingsályktunartillögu beinlínis hættuleg fyrir íslenska menningu, fyrir öryggishagsmuni landsmanna og ekki hvað síst fyrir fjölmiðlaveröld landsins með tilliti til ríkjandi samþjöppunar í þeim geira og þess þroska lýðræðisins í landinu sem vænta má næstu ár og áratugi. Sú lýðræðisþróun yrði bæði heft og njörvuð niður ef frjálst ríkisútvarp yrði lagt af. Ríkisútvarpið á þess vegna að halda áfram að vera til og tilvera þess er allri okkar samfélagsgerð og samfélagsþróun mikilvæg.

Núgildandi fjármögnun Ríkisútvarpsins með afnotagjöldum og auglýsingatekjum er óviðunandi. Afnotagjöld eru að vísu ekki há með tilliti til þeirrar þjónustu sem stofnunin veitir, en rökin gegn skylduáskrift eru góð og gild. Sömuleiðis má segja að samkeppnin á auglýsingamarkaði við aðra ljósvakafjölmiðla sé alls ekki sanngjörn. Ríkisútvarpið nýtur í henni meðgjafar með afnotagjöldunum sem Stöð 2 nýtur að vísu einnig, en með eðlilegri markaðssetningu og sölu þjónustu sinnar. Hér þarf breyting að koma til. Ekki verður séð að önnur lausn sé til í stöðunni en sú að Ríkisútvarpið verði að fullu fjármagnað úr ríkissjóði á fjárlögum ár hvert og því um leið skákað út af auglýsingamarkaðnum.

Gerð er tillaga um að viðskiptaauglýsingar verði felldar út úr dagskrá útvarpsins. Hins vegar er þörf félagasamtaka og opinberra stofnana fyrir að koma á framfæri tilkynningum til almennings of brýn til að þær megi fjarlægja úr útvarpinu.

Útvarpið svarar ekki þeim gríðarlega áhuga sem nú speglast vetur eftir vetur í aðsókn almennings að hvers kyns fræðslu og símenntun á vegum ýmissa aðila. Fólk víðs vegar um land á ekki kost á þessari fræðslu og útvarpið, stundum sjónvarpið, eru hinir eðlilegu miðlar til að jafna þennan aðstöðumun. Og sumir þéttbýlisbúar á suðvesturhorninu vilja líka fræðast, en eiga ekki heimangengt. Þá vantar ekki síður í dagskrána skipulega valið, vel gert og ígrundað efni um samfélag okkar, vandamál þess og viðfangsefni, pólitísk eða ópólitísk, eins og þau eru í dag.

Þjóðarútvarpi þarf að vera stýrt af hæfum fulltrúum fólksins í landinu. Þessi tillaga ber með sér að núgildandi skipan á flokkapólitísku, þingkjörnu útvarpsráði þyki ekki fullnægjandi í þessu sambandi. Þess í stað er gerð tillaga um að safnað verði saman allstóru ráði hinna hæfustu fulltrúa víðs vegar að úr samfélaginu. Vel mætti hugsa sér að slík akademía yrði tilnefnd einungis í fyrsta skipti og endurnýi sig svo sjálf með einhverjum hætti.

Grunnurinn undir réttarbót af því tagi, sem hér er fjallað um, þarf að vera bjargföst, undanbragðalaus og metnaðarfull stefna um að menningarlífið í landinu, almenningsfræðsla og samfélagsumræða þurfi á sjálfstæðu og öflugu þjóðarútvarpi að halda sem máttarstólpa lýðræðislegrar umfjöllunar.``

Svo mörg voru þau orð. Ég hygg nú að allmörg atvik liðinna ára og áratuga færi okkur heim sanninn um að heldur ógæfusamlegt kann að vera á stundum að Ríkisútvarpið sé undir stjórn flokkapólitíkusa valinna af hinu háa Alþingi.