Rekstur Ríkisútvarpsins

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 15:13:19 (849)

2001-10-30 15:13:19# 127. lþ. 16.9 fundur 7. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég tel þetta hið þarfasta þingmál sem hér er til umræðu. Hér hefur farið fram ágætisumræða um rekstur Ríkisútvarpsins.

Mig langar aðeins, vegna ummæla síðasta ræðumanns um að ekki séu lengur sendar út fréttir á stuttbylgju, að taka undir að þetta hefur verið mjög þörf þjónusta Ríkisútvarpsins, að senda út á stuttbylgju. Ég starfaði lengi vel erlendis mánuðum saman ár hvert og nýtti mér einmitt þessa þjónustu. Ég velti því þó fyrir mér hvort það er í raun sparnaðaraðgerð að hætta þessum sendingum eða hvort ný tækni hefur kannski tekið við. Í seinni tíð hef ég a.m.k. nýtt mér þá þjónustu, sem ég býst við að eigi við um mjög marga aðra, að hlusta á fréttir Ríkisútvarpsins í gegnum internetið eða í gegnum tölvu. Líklega er það viðhorfið hjá forustumönnum Ríkisútvarpsins að önnur tækni hafi þarna tekið við af stuttbylgjusendingunum. Nú segi ég þetta án þess að vita fyllilega hvort sú er raunin. Ég hef alla vega tekið eftir því að menn notfæra sér mjög mikið þá góðu þjónustu sem fer fram í gegnum vef Ríkisútvarpsins á internetinu í gegnum heimasíðuna. Þar er hægt að kalla fram eldri fréttir, nýjar fréttir, sjónvarpsfréttir o.s.frv.

Ég vildi, herra forseti, aðeins koma með þessa athugasemd. Að öðru leyti er ég hlynnt þessari þáltill. og tel þarft að setja á laggirnar þverpólitíska nefnd til að vinna að stefnumörkun í þá veru sem hér er lagt til.