Rekstur Ríkisútvarpsins

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 15:15:23 (850)

2001-10-30 15:15:23# 127. lþ. 16.9 fundur 7. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er að vísu alveg rétt að ný tækni er víða að ryðja sér til rúms og þeir sem hafa aðgang að henni geta vissulega nýtt sér hana. Sjómenn á fjarlægum miðum geta þó í fyrsta lagi verið þannig staðsettir að þeir hafi ekki samband í gegnum gervihnött og í öðru lagi er ekkert sjálfgefið að í skipum þeirra sé búnaður til að taka á móti sendingum í gegnum internetið eða gervihnött. Meðal annars af þessum ástæðum hafa sjómenn viljað viðhalda því að fá þessar sendingar á stuttbylgju. Og ég hygg reyndar að það sé verulegur þjóðhagslegur sparnaður af því að Ríkisútvarpið annist þessar sendingar á stuttbylgju frekar en að hver og einn sé að borga, oft og tíðum talsvert dýrar, tengingar eins og þegar verið er að senda þetta í gegnum gervihnött þar sem það er hægt en það er reyndar ekkert alls staðar. Ef menn eru t.d. staddir á mjög hárri breiddargráðu eins og norður í Barentshafi getur verið að ekkert samband sé í gegnum gervihnött að þessu leyti. Og þar að auki þurfa útgerðirnar þá að kosta því til að setja þennan búnað um borð í skipin og það eru, alltént enn þá, þó nokkuð miklir fjármunir þó að þessi tækni eins og önnur tækni fari auðvitað lækkandi í verði með árunum.

Ég vil bara vekja athygli á því að þetta nægir ekki fyrir sjómenn.