Áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 15:54:10 (857)

2001-10-30 15:54:10# 127. lþ. 16.10 fundur 9. mál: #A áfangaskýrsla um nýtingu vatnsafls og jarðvarma# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að rammaáætlunin er ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Það breytir því ekki að það eru lög í landinu og lagagrein sem ég las upp hérna áðan kveður nánast á um að Landsvirkjun hafi þær skyldur að afla orku.

Svo ég fari nú aðeins yfir þetta aftur, hæstv. forseti:

,,Röð framkvæmda við virkjanir og aðrar stórframkvæmdir í raforkumálum skal ráðast af væntanlegri nýtingu orkunnar og skal þess gætt að orkuöflunin verði með sem hagkvæmustum hætti fyrir þjóðarbúið.``

Síðan þessi lög voru sett höfum við fengið lögin um mat á umhverfisáhrifum þannig að fyrirtækjunum er í sjálfu sér í sjálfsvald sett hvort þau vilja fara út í það ferli og síðan kemur í ljós hvað kemur út úr því öllu saman. Ég tel að það sé á ákveðnum misskilningi byggt að telja að með samþykkt þáltill. á hv. Alþingi séum við að afnema þessa grein sem er svona skýr eins og raun ber vitni.

Vel getur verið að það hafi eitthvað að segja í málflutningi hv. þm. að hann kvíði því að þurfa að taka afstöðu til t.d. framkvæmda við Norðlingaöldu. Hann sagði áðan eða lét að því liggja að það væri svo sem allt í lagi þótt fyrirtækið Norðurál þyrfti eitthvað að bíða eftir því að fara út í frekari stækkanir. Mér þætti gaman að vita hvort það er almenn skoðun Samfylkingarinnar. Mér er ekki kunnugt um það en ég hef grun um að svo sé ekki miðað við samtöl mín við ýmsa þingmenn.