Landsdómur

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 17:25:14 (872)

2001-10-30 17:25:14# 127. lþ. 16.12 fundur 12. mál: #A landsdómur# þál., LB
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[17:25]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem hafði framsögu fyrir því máli sem við ræðum hér, flutti skýra og ágæta ræðu um það hvert markmiðið væri með flutningi þeirrar tillögu sem hér er á dagskrá og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir fylgdi því einnig eftir með ákveðnum áherslum. Sá sem hér stendur er 3. flm. að tillögunni og styð ég að sjálfsögðu það sem hér hefur komið fram.

Ég vildi hins vegar hnykkja aðeins á því að það sem hér er verið að leggja til er að þessi mál verði skoðuð í heild sinni, þau verði tekin upp og menn reyni að horfa til þess hvers vegna við erum með ákvæði af þessum toga, hvers vegna við erum með lög af þeim toga þar sem Alþingi er færður málshöfðunarrétturinn þegar kemur að því að fjalla um ráðherrana. Grundvallarhugsunin í þessu er vitaskuld sú að þrígreining ríkisvaldsins gengur út á það að Alþingi hafi eftirlit með stjórnvöldum. Við erum hins vegar með þær reglur nú í gildi að það tæki sem landsdómur er er varla virkt, enda hefur hann ekki komið saman. Því er hugmyndin sú að reyna að taka þessi mál til endurskoðunar, velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að hafa þetta með þessum hætti, hvort ástæða sé til að færa þetta undir almenna dómstóla eða hvort ástæða sé til að finna enn eina leiðina með það að markmiði að tryggja að vel sé farið með það vald sem ráðherrum er falið.

Hér er ekki verið að leita leiða til að koma mönnum undir refsiábyrgð í tíma og ótíma. Það er langur vegur þar í frá. Fyrst og fremst er verið að velta því upp hvernig hægt er að tryggja að Alþingi hafi tækifæri til, og þá einkum minni hluti Alþingis, að hafa það eftirlit með ráðherrum sem nauðsynlegt er. Eins og þessum málum er fyrir komið núna verður að teljast frekar ólíklegt, líka í ljósi þingræðisreglunnar að meiri hluti Alþingis verði að styðja þá ríkisstjórn sem situr hverju sinni, að til þess komi að landsdómur verði kallaður saman, en það sem hér er lagt til er fyrst og fremst heildarendurskoðun á þessum hlutum með það að markmiði að aðhald með ráðherrum og ríkisstjórn hverju sinni sé eins gott og það getur orðið. Það hlýtur alla vega að verða hlutverk minni hluta Alþingis að veita slíkt aðhald. Það er markmiðið með þeim hugmyndum sem hér eru lagðar fram.