Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 18:26:21 (884)

2001-10-30 18:26:21# 127. lþ. 16.16 fundur 17. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka undir þessa þáltill. frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Ég tel mikilvægt að leggja vinnu í að finna út hvernig hægt er að sporna við því að fólk sé látið gjalda aldurs á vinnustað, hvort sem það er með uppsögnum eða mismunun í starfi. Þetta er tímabær umræða sem þarf að fara fram.

Ég held að það sé alveg rétt sem kom fram hjá framsögumanni, þ.e. að ekki verði að öllu leyti hægt að taka á þessu með lagasetningu. Það þarf auðvitað að auka umræðuna um þessi mál. Það þarf jákvæða umræðu og vekja athygli á þessu í samfélaginu. Auðvitað er á vissan hátt komið að þessu í lagasetningu, ég vil t.d. vísa til jafnréttislaga þar sem ekki aðeins um jafnrétti kynjanna að ræða heldur einnig jafnrétti milli ungra og gamalla. Sömuleiðis vísa ég til mannréttindaákvæða í stjórnarskránni en samkvæmt þeim er ekki er heimilt að mismuna fólki eftir ákveðnum atriðum, t.d. aldri.

Ég vil líka minna á að ég hef rætt nokkuð um þessi mál og m.a. flutt frv. um sveigjanleg starfslok. Ég tel mjög mikilvægt að sveigjanlegum starfslokum verði komið á. Það mál hefur ekki náð fram að ganga. Í umræðum um það hefur verið vísað til þessarar nefndar forsrh. um sveigjanleg starfslok. Ég hef borið fram fyrirspurnir um vinnu þeirrar nefndar því að það er orðið okkuð brýnt að hún hraði störfum sínum og á verði komið raunverulega sveigjanlegum starfslokum þannig að fólk geti unnið lengur en til sjötugs ef það hefur heilsu, vilja, getu og möguleika til.

Varðandi ungt fólk og eldra fólk í störfum þá ber okkur að hafa í huga þau verðmæti sem felast í reynslu og þekkingu eldra fólks á vinnumarkaði. Einnig er annað sem ég vil nefna í þessu sambandi og það er hversu eldra fólk er tryggara við vinnustað sinn en yngra fólk gjarnan er. Það hefur sýnt sig í könnunum að eldra fólk sækir vinnu mun betur og er minna frá vegna veikinda, kemur meira til vinnu þó það sé hálflasið. Ég vitna hér til könnunar sem Vinnumálastofnun kynnti nýverið um starfsfólk á hjúkrunarstofnunum þar sem sú niðurstaða varð í könnuninni að eldra fólkið er samviskusamara. Það gæti e.t.v. verið vegna þess að það er hræddara um að missa vinnuna. Ég veit það ekki en a.m.k. varð þetta niðurstaðan í þessari könnun Vinnumálastofnunar.

Við vitum að þegar kreppir að á vinnumarkaði þá hefur tilhneigingin verið að láta eldra fólkið fara fyrr. Það er kvartað undan því að fólk sem fer úr vinnu, jafnvel fyrir fimmtugt, eigi erfitt með að fá vinnu aftur. Yngra fólk er látið ganga fyrir. Vissulega ber að huga að þessum málum og vonast er til þess að farið verði í að skoða hvernig hægt verði að stuðla að því að eldra fólk verði ekki látið gjalda aldurs á vinnustað, hvort heldur er með uppsögnum eða á annan hátt.