Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 18:31:02 (885)

2001-10-30 18:31:02# 127. lþ. 16.16 fundur 17. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[18:31]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tek undir efni þessarar þáltill. sem hér er flutt af hv. þm. Ögmundi Jónassyni og tel að verið sé að hreyfa mjög þörfu máli og nauðsynlegu í okkar þjóðfélagi og sérstaklega þá með tilliti til þess hvernig mál hafa verið að þróast almennt á vinnumarkaði á undanförnum tíu árum eða þar um bil. Það sjónarmið virðist vera talsvert ríkjandi að hinir eldri og reyndari starfsmenn, starfsmenn með mikla starfsreynslu sem búa að lífsreynslu og mikilli þekkingu, séu látnir víkja fyrir yngra fólki.

Ég tel mjög mikilvægt að fram fari endurskoðun á lögum, eins og segir hér í greinargerðinni, með það fyrir augum að tryggja stöðu einstaklinga þannig að þeir verði ekki látnir gjalda aldurs síns á vinnustað. Það er alltént mín skoðun að í reynslu starfsmanna séu falin mikil verðmæti fyrir hvert fyrirtæki. Vissulega ber að huga að þeim verðmætum þegar verið er að ræða um starf og stöðu fólks í fyrirtækjum, að hið svokallaða ,,útlit fyrirtækjanna`` sé ekki sett í öndvegi og alfarið horft til þess að starfsfólk sé undir ákveðnum aldri eða hafi yngra yfirbragð og yngra útlit, á kostnað reynslunnar, þekkingarinnar og samviskuseminnar í starfi. Þá er ég ekki að gera lítið úr samviskusemi og dugnaði ungs fólks í starfi, ég á einfaldlega við að það sé ekki rétt að ganga fram hjá starfsreynslu og kunnáttu fólks þó að það sé komið á seinni hluta starfsferils síns.

Þess vegna tek ég mjög undir það sem segir hér í efni tillögunnar, að nefnd verði skipuð með fulltrúum samtaka launafólks og fulltrúa stjórnmálaflokkanna á Alþingi og nefndin skoði með hvaða hætti megi bæta réttarstöðu eldra fólks. Margt bendir til þess að það færist í aukana að stjórnendur á vinnustöðum leggi áherslu á það við mannaráðningar að ungt fólk sé tekið fram yfir eldra fólk og þar af leiðandi held ég að hér sé verið að hreyfa mjög góðu máli og vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að flytja þetta mál aftur.

Ég sé líka í greinargerðinni, eins og hún lítur út núna, að fjöldamörg samtök hafa tekið þessari þáltill. vel og leggja eindregið til að hún verði samþykkt, m.a. Landssamtök eldri borgara, Öryrkjabandalag Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, launþegasamtökin sum og þannig mætti lengi telja. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta, ég ætla bara að lýsa því yfir að ég tel að það sé mikilvægt að slík endurskoðun laganna fari fram ef það mætti verða til þess að starfsreynsla eldra fólks og réttindi yrðu meira metin en manni hefur virst vera í framkvæmd á undanförnum árum og missirum. Þess vegna vil ég eindregið mælast til þess að þessi tillaga fái stuðning og að alþingismenn leggi henni lið.