Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 18:44:17 (888)

2001-10-30 18:44:17# 127. lþ. 16.15 fundur 16. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (lausir kjarasamningar o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[18:44]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Að mínum dómi er hér á ferðinni hið ágætasta mál. Í dag --- ég held að ég fari rétt með --- er eitt ár liðið frá því að kjarasamningar sjúkraliða runnu út. Hvað skyldi ríkissjóður hafa hagnast á því að samningar hafa dregist á langinn sem þessu nemur? Ég hef ekki á hraðbergi þá upphæð en hún er mikil. Hitt er víst að sjúkraliðar hafa að sjálfsögðu ekki hagnast á þessum drætti.

[18:45]

Þetta er ekkert einsdæmi. Á almennum vinnumarkaði er þekkt að endemum hve lengi sjómenn hafa verið án samninga, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, flm. þessa frv., og hið sama gildir hjá hinu opinbera. Í sumum tilvikum er það einfaldlega vegna þess að ríki og sveitarfélög hafa ekki ráðið við gang mála. Það er mikill fjöldi félaga sem verið er að semja við og þá gerist það að sest er að samningaborði með þeim sem hafa mestan þrýstinginn á bak við sig, hafa boðað til verkfalls eða verkfall hefur skollið á, og hin eru þá látin bíða. Þetta gerist að hluta til.

Hins vegar getur sú staða komið upp að viðsemjandi launafólks reyni beinlínis að draga samninga á langinn vegna þess að það hagnast honum, og slíkt er ótækt. Þetta frv., ef að lögum verður, mundi sporna gegn því vegna þess að hér er gert ráð fyrir því að þegar kjarasamningur hefur verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildi hann frá undirskriftardegi en þó því aðeins að hann hafi verið undirritaður innan sex mánaða frá því að fyrri samningur féll úr gildi, enda sé ekki á annan veg samið. Reyndar mundi ég vilja ganga enn lengra og segja að samningar eigi að gilda frá því samningarnir runnu út, þ.e. frá því að samningur rann út þá eigi samningurinn að gilda. Síðan mætti hugsa sér að svo væri ef samningar væru gerðir innan sex mánaða frá því að þeir runnu út, og síðan gæti komið þessi síðari regla sem kveður á um í frv. ef þeir drægust enn á langinn. Mér finnst að nálgast mætti þetta mál líka á annan hátt og segja sem svo að sá háttur skuli hafður á að samningar gildi frá því að þeir renna út nema til verkfalls komi. Að ef til verkfalls kemur þá sé einfaldlega annað upp á tengingnum, að þá komi til kasta annarra reglna og þá semji samningsaðilar um upphaf samningsins en lögin gildi ekki um slíkt. Eftir því sem ég hugsa málið betur vildi ég ganga enn lengra en tillögumaður. Þó að þetta sé vissulega mikil réttarbót, og ég tek undir það, þá tel ég að samningar eigi að gilda frá þeim degi sem þeir renna út jafnvel þótt þeir hafi dregist á langinn nema til verkfalla hafi komið, þá semji samningsaðilar en séu óháðir lögum.

En það sem mér finnst vera mikilvægt í þessu máli er að það fái góða umfjöllun. Ég held að nauðsynlegt sé að taka á þessu máli og ég hef orðið var við vilja atvinnurekenda og þar á meðal hjá ríkinu að endurskoða þessi lög með þetta í huga því að þetta gengur engan veginn upp eins og málum er nú komið.