Kostnaður við heilbrigðisþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:06:20 (908)

2001-10-31 14:06:20# 127. lþ. 18.1 fundur 147. mál: #A kostnaður við heilbrigðisþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Í fyrirspurn þessari er væntanlega verið að vitna til dóms Evrópudómstólsins í máli Smits og Peerbooms frá 12. júlí sl. þar sem sjúkrahúsmeðferð er talin falla undir þjónustuhugtakið í Rómarsáttmálanum. Aðildarríkjum Evrópusambandsins er þó heimilt að takmarka aðgang að sjúkarhúsmeðferð í öðrum ríkjum séu fyrir því haldbær rök svo sem að tryggja fjárhagslegan stöðugleika í heilbrigðiskerfinu. Þess má geta að Ísland sendi dómstólnum greinargerð í málinu og voru sjónarmið okkar staðfest í meginatriðum.

Í umræddu máli kemst dómstóllinn m.a. að þeirri niðurstöðu að það kerfi að samþykkja þurfi sjúkrahúsvist erlendis fyrir fram, sé samrýmanlegt ákvæði Rómarsáttmálans að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Aðildarríki mega þó ekki synja sjúklingi um nauðsynlega meðferð en við mat á því hvort meðferð sé nauðsynleg verða aðildarríkin að taka tillit til þriggja þátta.

Í fyrsta lagi hvort heilbrigðisstofnun heima fyrir geti veitt meðferðina án of mikillar tafar.

Í öðru lagi þarf að meta ástand sjúklings sérstaklega í hvert skipti.

Í þriðja lagi, og hér kemur mikilvægt atriði með tilliti til fyrirspurnarinnar, hafa aðildarríkin heimild til að meta nauðsyn þess að hafa í landinu nægt og stöðugt framboð af hágæðasjúkrahúsmeðferð og tryggja fjárhagslegan stöðugleika sjúkratrygginga.

Tekur dómstóllinn sérstaklega fram að færi stór hluti tryggðra sjúklinga að leita til erlendra sjúkrahúsa gæti það haft í för með sér að ógerlegt væri að skipuleggja og fjármagna sjúkrahúsþjónustu. Niðurstaða Evrópudómstólsins gefur þannig ekki færi á því að sjúklingar geti án takmarkana leitað sér sjúkrahúsmeðferðar erlendis sem ekki er unnt að veita tímanlega í heimalandinu.

Um fordæmisgildi dómsins að öðru leyti vísa ég til þess að þó að Evrópudómstóllinn sé búinn að fella heilbrigðisþjónustu undir Rómarsáttmálann hafa aðildarríkin eigi að síður víðtækar heimildir til að takmarka aðgang að slíkri þjónustu, þ.e. með vísan til þeirra þátta sem ég hef áður nefnt, svo sem til að tryggja nægt framboð heilbrigðisþjónustu og fjárhagslegan stöðugleika sjúkratrygginga.